Innlent

Segir sveitarfélög gleyma ábyrgð sinni á almannavörnum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Víðir Reynisson frá lögreglunni á Suðurlandi.
Víðir Reynisson frá lögreglunni á Suðurlandi.

Sveitarfélögin eru mikilvægasti hlekkurinn og ráða miklu þegar náttúruvá og almannavarnir fara saman segir Víðir Reynisson, lögreglumaður og einn helsti sérfræðingur landsins í almannavörnum. Þeim hætti til við að gleyma ábyrgð sinni á almannavörnum.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, lögreglustjórinn á Suðurlandi og lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum í samstarfi við Skipulagsstofnun stóðu nýlega fyrir ráðstefnu um almannavarnir og skipulag þar sem fjallað var um náttúruvá og viðbrögð við henni. Víðir Reynisson hélt erindi fyrir hönd almannavarna á Suðurlandi enda hefur hann unnið lengi að þeim málum á svæðinu.

„Það er auðvitað þannig að sveitarfélögin eru lykilaðilinn í þessum málum. Þau ráða ansi miklu í þessu. Þau taka ákvörðun í gegnum skipulagslögin og í gegnum skipulagsmálin og reglugerðirnar um notkun á þeim landgæðum sem fyrir eru,“ segir hann.

Víðir segir að í lögum um almannavarnir komi fram að markmið almannavarna sé að framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerðum. Víðir segir að það þurfi að huga að mörgum þáttum þegar almannavarnir eru annars vegar.

„Þegar við vorum að vinna hættumatið fyrir Kötluhlaupin og flóðin til vesturs þá til dæmis koma það í ljós að á flóðasvæðunum var gríðarlegt magn af bensínstöðvum, ofboðslegt magn af eldsneyti. Tiltölulega lítill atburður og þá erum við farin að eiga við verulegt umhverfistjón, “ segir Víðir.

Í erindi sínu skaut Víðir á sveitarfélög landsins fyrir að hafa gleymt því að samhliða því að beri stærstu ábyrgðina í skipulagsmálum beri þau einnig stærstu ábyrgðina í almannavörnum.

„Þetta þurfum við að ná að tengja saman og ég held að grunnurinn að þessu sé að það sé unnið hættumat fyrir mismunandi náttúruvá, sett viðmið og við í sameiningum vinnum þetta áfram,“ sagði hann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.