Enski boltinn

Sagan á bak við framherjaparið sem gæti fært Arsenal Evróputitil í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang og Alexandre Lacazette.
Pierre-Emerick Aubameyang og Alexandre Lacazette. Vísir/Getty
Pierre-Emerick Aubameyang og Alexandre Lacazette mynda eitt öflugasta framherjapar fótboltaheimsins í dag. Arsenal treystir á þá og þeirra samstarf í Bakú í kvöld.

Arsenal tryggir sér ekki aðeins titil með sigri á Chelsea í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í kvöld því í boði er einnig sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Úrslitaleikur Chelsea og Arsenal hefst klukkan 19.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Það tók knattspyrnustjórann Unai Emery langan tíma að finna réttu leiðin til að nýta sem best krafta framherjanna öflugu Pierre-Emerick Aubameyang og Alexandre Lacazette.

Í byrjun spilaði hann oftast bara öðrum þeirra sem var eitthvað sem pirraði stuðningsmenn liðsins enda tveir heimsklassa leikmann þar á ferðinni og dapurt að þurfa að geyma annan þeirra á bekknum.

Þegar leið á tímabilið þá fóru þeir Pierre-Emerick Aubameyang og Alexandre Lacazette spila saman í fremstu víglínu og sú samvinna á mikinn þátt í því að Arsenal er komið alla leið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Aubameyang varð auk þess einn af markakóngum ensku úrvalsdeildarinnar á leiktíðinni.

Pierre-Emerick Aubameyang og Alexandre Lacazette eru saman með 50 mörk og 21 stoðsendingu í öllum keppnum á tímabilinu þar af 13 mörk og 5 stoðsendingar í Evrópudeildinni. Með þá tvo innanborðs er nánast hægt að ganga að því vísu að Arsenal mun skora í úrslitaleiknum í kvöld og örlög liðsins ráðast því kannski frekar á varnarleik og markvörslu.

Bleacher Report Football vefsíðan tók saman fróðlegt myndband um ferðalag Unai Emery að því að geta sett saman eitt öflugasta framherjapar fótboltaheimsins í dag. Það má sjá það hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×