Erlent

For­seta­kosningar í Litháen: Járn­frúin lætur senn af em­bætti

Atli Ísleifsson skrifar
Dalia Grybauskaitė hefur gegnt embætti forseta Litháren frá árinu 2009.
Dalia Grybauskaitė hefur gegnt embætti forseta Litháren frá árinu 2009. EPA
Litháar genga að kjörborðinu í dag til að kjósa nýjan forseta og um breytingar á stjórnarskrá landsins. Núverandi forseti landsins, Dalia Grybauskaitė, er nú að klára sitt annað kjörtímabil og kemur stjórnarskrá landsins í veg fyrir að hún geti setið áfram.

Alls eru níu manns í framboði til forseta. Hljóti enginn þeirra hreinan meirihluta verður kosið milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hljóta í annarri umferð sem fram færi að tveimur vikum liðnum.

Hagfræðingurinn Gitanas Nausėda er í framboði til embætti forseta Litháen.EPA

Fækkun þingmanna

Þeir frambjóðendur sem hafa mælst með mest fylgi í könnunum eru hagfræðingurinn Gitanas Nausėda og fyrrverandi fjármálaráðherra landsins, Ingrida Šimonytė.

Samhliða forsetakosningunum fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar á stjórnarskrá sem fæli í sér fækkun þingmanna úr 141 í 121, auk þess litháískum ríkisborgurum yrði heimilt að vera með tvöfalt ríkisfang.

Ingrida Šimonytė, fyrrverandi fjármálaráðherra, er einnig í framboði til forseta.EPA
Embætti forseta Litháen svipar nokkuð til þess finnska að því leyti að hann hefur sérstaklega mikil völd þegar kemur að utanríkisstefnu landsins.

Járnfrúin mögulegur arftaki Tusk

Fráfarandi forseti, Dalia Grybauskaitė, hefur á undanförnum árum fengið viðurnefnið Járnfrúin, líkt og Margaret Thatcher, vegna beinskeytts stjórnarstíls, harðrar afstöðu sinnar í garð Rússlands, auk þess að hún er með svart belti í karate.

Grybauskaitė hefur ítrekað verið nefnd sem mögulegur arftaki Pólverjans Donalds Tusk en hann lætur senn af embætti sem forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Áður en hún tók við embætti forseta hafði hún gegnt embætti fjármálaráðherra landsins og framkvæmdastjóra í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (2004-2009).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×