Innlent

Andstæðingar orkupakkans afhentu varaforseta undirskriftir

Kjartan Kjartansson skrifar
Frosti Sigurjónsson (t.v.) afhendir Guðjóni Brjánssyni, varaforseta þingsins, undirskriftirnar. Guðjón tók við þeim í fjarveru Steingríms J. Sigfússonar, þingforseta.
Frosti Sigurjónsson (t.v.) afhendir Guðjóni Brjánssyni, varaforseta þingsins, undirskriftirnar. Guðjón tók við þeim í fjarveru Steingríms J. Sigfússonar, þingforseta. Orkan okkar
Fulltrúar hópsins Orkunnar okkar afhentu varaforseta Alþingis undirskriftalista gegn þriðja orkupakkanum. Hópurinn segist hafa safnað rúmlega þrettán þúsund undirskriftum gegn samþykkt breytingarinnar á EES-samningnum.

Síðari umræða um þriðja orkupakkann svonefnda hefur staðið yfir á Alþingi í dag. Í kvöld afhenti Frosti Sigurjónsson, einn talsmanna Orkunnar okkar, Guðjóni S. Brjánssyni, fyrsta varaforseta þingsins, lista með nöfnum sem hópurinn safnaði í rafrænni undirskriftarsöfnun.

„Ekki reyndist unnt að safna öllum eiginhandarundirritunum saman en tæplega 14.000 undirskriftir (nákvæm tala 13.480) voru afhentar þingforseta í dag . Undirskriftarsöfnunin heldur áfram þar til atkvæðagreiðsla um málið hefur farið fram,“ segir í tilkynningu frá Orkunni okkar.

Með undirskriftunum krefst hópurinn þess að Alþingi hafni staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á fjórða viðaukanum við EES-samninginn sem fjallar um orkumál sem í daglegu tali hefur verið nefnd þriðji orkupakkinn.

Þá krefst hópurinn þess að Ísland verði undanþegið innleiðingu þriðja orkupakkans á þeim forsendum að landið sé ekki tengt raforkumarkaði Evrópusambandsins.

Síðari umræða um breytingarnar á viðaukanum við EES-samninginn stendur enn yfir. Klukkan átta í kvöld voru enn um tuttugu þingmenn á mælendaskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×