Innlent

Hatari gagnrýndur fyrir skort á gagnrýni

Sighvatur Jónsson skrifar
Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistarblaðamaður, telur að Hatari megi nota tækifærið í Eurovision betur til að gagnrýna stöðuna milli Ísraels og Palestínu.
Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistarblaðamaður, telur að Hatari megi nota tækifærið í Eurovision betur til að gagnrýna stöðuna milli Ísraels og Palestínu. Vísir/Sigurjón

Á meðan landsmenn og heimsbyggðin öll veltir því fyrir sér hvort hatrið muni sigra Eurovision er hljómsveitin Hatari gagnrýnd fyrir skort á gagnrýni um málefni Palestínu og Ísraels. Íslenskur tónlistarblaðamaður sem sniðgengur hátíðina í ár hvetur Hatara til að hnykkja betur á skilaboðum sínum.

Hið svokallaða foreldrafélag Hatara fagnaði með íslenska hópnum í Expo-höllinni í Tel Aviv í gærkvöldi. Áfanga var náð. Ísland verður með á úrslitakvöldi Eurovision eftir fimm ára hlé.

Foreldrar, makar, ættingjar og vinir Hatara glöddust einnig með tónlistarfólkinu á Dan Panorama hótelinu í nótt.

Matthías Tryggvi Haraldsson söngvari sagði á fyrsta blaðamannafundinum ytra að Hatari vonaði að hernámi Ísraels á Palestínu lyki.

Síðan þá hefur orðfæri sveitarinnar verið mildara - og það er líka gagnrýnt.

Jón Ólafsson tónlistarmaður skrifaði á Facebook í dag að hann hafi orðið sorgmæddur þegar Dana International, sem vann keppnina fyrir Ísrael 1998, hafi boðað frið og ást í þaulskipulögðu áróðursatriði Ísraela í Eurovision.

„Ég vona svo sannarlega að Hatari tali hreint út við öll tækifæri sem gefast héðan í frá,“ skrifaði Jón.

Arnar Eggert Thoroddsen er einn þeirra landsmanna sem sniðganga Eurovision keppnina með öllu í ár.

„Ég tek það skýrt fram að þessi keppni er notuð af ísraelsku ríkisstjórninni til að hvítþvo sig menningarlega svo þeir geti haldið áfram kúguninni á Palestínu sem hefur verið í gangi síðan 1948 og verður verri með hverju ári. Þessi trójuhestur sem Hatari er, ég vona að þeir hnykki betur á þessu á næstu dögum.“

Og komi með eitthvað óvænt útspil jafnvel í lokin?

„Ja, ef þeir komast fram hjá ísraelsku vörðunum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.