Fótbolti

41 árs og á leiðinni á sitt sjöunda heimsmeistaramót í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Formiga hefur tekið þátt í sex heimsmeistaramótum og keppt á sex Ólympíuleikum.
Formiga hefur tekið þátt í sex heimsmeistaramótum og keppt á sex Ólympíuleikum. Getty/Mark Kolbe
Brasilíska knattspyrnukonan Formiga mun seta nýtt met í sumar þegar hún tekur þátt í sínu sjöunda heimsmeistaramóti í fótbolta á HM í Frakklandi.

Formiga er í brasilíska HM-hópnum og bætir þar með met sitt og hinnar japönsku Homare Sawa en þær voru báðar með í sjötta sinn á HM í Kanada 2015.

Enginn karl eða kona hefur tekið þátt í sjö heimsmeistaramótum í stærstu íþróttagrein heims. Þrír karlar deila metinu en þeir Rafael Marquez, Antonio Carbajal og Lothar Matthaeus tóku allir þátt í fimm heimsmeistaramótumn.

Formiga er leikmaður franska liðsins Paris Saint-Germain og hefur verið það frá árinu 2017 en hún hefur leikið í Bandaríkjunum og Svíþjóð auk heimalandsins.





Formiga var fyrst með á HM 1995 í Svíþjóð þá aðeins sautján ára gömul. Hún var einnig með Brasilíu á HM 1999, HM 2003, HM 2007, HM 2011 og HM 2015. Alls hefur hún spilað 24 leiki í úrslitakeppni HM.

Formiga hefur einnig tekið þátt í sex Ólympíuleikum eða allt frá ÓL í Atalanta 1996 til ÓL í Ríó 2016.

Formiga hætti í landsliðinu árið 2016 en tók landsliðsskóna af hilluna fyrir Suðurameríkukeppnina í fyrra.

Um leið og Formiga tekur þátt í leik í sumar verður hún sú elsta til að spila á heimsmeistaramóti. Hún fæddist 3. mars 1978.

Formiga er ekki eini reynsluboltinn í brasilíska HM-hópnum því Marta er á leiðinni á sitt fimmta heimsmeistaramót. Marta hefur skoraði fimmtán mörk í úrslitakeppni HM eða fleiri en nokkur önnur kona.

Fyrsti leikur Brasilíu á HM 2019 verður á móti Jamaíka 9. júní en svo taka við leikir á móti Ástralíu og Ítalíu.

Brasilíska kvennalandsliðið hefur aldrei náð að vinna heimsmeistaramótið en komst næst því á HM 2007 í Þýskalandi þegar liðið varð í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×