Innlent

Formaður Samfylkingarinnar telur fyrirkomulag Alþingis um siðamál ótækt

Sighvatur Jónsson skrifar

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, telur fyrirkomulag Alþingis um siðamál vera ótækt. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata segir álit siðanefndar þingsins, um að hún hafi brotið siðareglur með ummælum sínum um akstursgreiðslur Ásmundar Friðrikssonar, vera súrrealískt og kaldhæðnislegt.

Málið snýst um ummæli Pírata-þingmannanna Þórhildar Sunnu og Björns Levís um endurgreiðslur á aksturskostnaði Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þau voru skoðuð af siðanefnd Alþingis eftir kvörtun frá Ásmundi.

Álit nefndarinnar er að Þórhildur Sunnar hafi brotið siðareglur þingsins með ummælum sínum um „rökstuddan grun“ um að Ásmundur hafi dregið sér fé.

„Það er búið að vísa frá fjölmörgum að mér finnst töluvert alvarlegri málum. Til dæmis fengu akstursgreiðslur Ásmundar ekki náð fyrir augum forsætisnefndar að koma fyrir siðanefndina,“ segir Þórhildur Sunna.

Björn Leví var ekki talinn hafa brotið gegn siðareglum með sínum ummælum.

„Efnislega taldi ég mig vera að segja nákvæmlega það sama og Sunna sagði, þannig að ég skil ekki alveg af hverju þau komust að mismunandi niðurstöðu,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.

Þórhildur Sunna ætlar að skila inn andmælum sínum fyrir fund forsætisnefndar á mánudag.

„En ef þetta fær að standa þá þýðir það að það má ekki benda á það sem aflaga fer á þinginu. Að benda á það sem er að, er það sem mun varpa rýrð á ímynd Alþingis. Ég held að við viljum ekki hafa svoleiðis Alþingi,“ segir Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að fyrirkomulag þingsins varðandi siðamál virki greinilega ekki.

„Við getum leitað til lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE sem sér um að veita ríkjum hjálp við að tryggja góða stjórnarhætti, efla traust og síðast en ekki síst veita ráðgjöf í að semja siðareglur,“ segir Logi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×