Innlent

Fyrsti þristurinn í hópfluginu á leið til Reykjavíkur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugvélarnar eru á leiðinni frá Bandaríkjunum til Evrópu til að minnast 75 ára afmælis innrásarinnar í Normandí.
Flugvélarnar eru á leiðinni frá Bandaríkjunum til Evrópu til að minnast 75 ára afmælis innrásarinnar í Normandí. Ddaysquadron/Tom Demerly
Fyrsti þristurinn í miklu hópflugi gamalla stríðsvéla yfir Atlantshafið er á leiðinni til Íslands frá Grænlandi. Lending á Reykjavíkurflugvelli er áætluð um klukkan 18.15, samkvæmt upplýsingum frá flugþjónustunni ACE FBO, sem annast afgreiðslu vélanna hérlendis.

Vélarnar eru af gerðinni Douglas Dakota C-47, eins og hernaðarútgáfan var kölluð, og DC-3, en svo nefndist borgaralega útgáfan. Þær eru á leiðinni frá Bandaríkjunum til Evrópu til að taka þátt í athöfnum til að minnast þess að þann 6. júní næstkomandi verða 75 ár liðin frá D-deginum árið 1944, sem markaði upphaf innrásarinnar í Normandí í Frakklandi.

Þristurinn sem væntanlegur er í kvöld kallast Clipper Tabitha May.Mynd/Ddaysquadron
Síðdegis á morgun eru ellefu vélar væntanlegar saman til Reykjavíkur og verður það stærsta hópflugið. Það ræðst þó af veðurspá hvort sú tímasetning stenst. Vélin sem væntanleg er í kvöld kallast Clipper Tabitha May en óvíst er hver endanlegur fjöldi verður. 

Flugflotanum verður lagt norðan við Loftleiðahótelið. Stefnt er að því að almenningi verði gefinn kostur á að skoða flugvélarnar á þriðjudag en áformað er að þær fljúgi áfram til Skotlands á miðvikudag.

Vonast er til að hægt verði að fljúga íslenska þristinum Páli Sveinssyni frá Akureyri til Reykjavíkur á morgun til heiðurs flugflotanum. Það er þó háð því að flugvirkjum takist í tæka tíð að lagfæra olíuleka á öðrum hreyflinum, að sögn Tómasar Dags Helgasonar, formanns Þristavinafélagsins. 

Hér má fylgjast með flugi Clipper Tabitha May, en hún hefur skrásetningarstafina N33611. Lesa má um leiðangurinn á heimasíðu D-Day Squadron.


Tengdar fréttir

Þrír þristar saman á Reykjavíkurflugvelli

Sjaldséður viðburður verður á Reykjavíkurflugvelli um sjöleytið í kvöld þegar tveir þristar á áttræðisaldri, forngripir af gerðinni Douglas DC-3, fara í samsíða flug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×