Innlent

Hælisleitendur fara í Keflavíkurgöngu

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Hælisleitendur voru meðal þeirra sem tóku þátt í dagskrá róttæks 1. maí í gær.
Hælisleitendur voru meðal þeirra sem tóku þátt í dagskrá róttæks 1. maí í gær. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
„Þetta er löng leið að ganga en þetta sýnir hversu frústreruð við erum og uppgefin á ástandinu. Síðustu þrjá mánuði höfum við mótmælt á ýmsan hátt en enginn hlustar á okkur. Ekkert hefur breyst svo við vildum gera þetta til að vekja athygli á okkar stöðu,“ segir Milad Waskout, hælisleitandi frá Íran.

Næstkomandi laugardag standa samtökin No borders og Refugees in Iceland fyrir kröfugöngu frá Keflavík til Reykjavíkur. Gengið verður frá húsnæði Útlendingastofnunar fyrir flóttamenn á Ásbrú og endar gangan á Austurvelli.

Milad hefur dvalið á Íslandi frá því í september á síðasta ári. Nú segist hann einfaldlega bíða þess að vera vísað úr landi en beiðni hans um hæli hér á landi hefur verið synjað sem og áfrýjunum.

Milad kom til landsins frá Grikklandi þar sem hann hefur pólitískt hæli. „Ég gat ekki verið þar lengur vegna ástandsins og þess vegna kom ég hingað. Íslensk yfirvöld vilja senda mig aftur til Grikklands en það er eins og helvíti fyrir flóttamenn.“

„Í Íran var ég pólitískur aðgerða­sinni. Ég lenti í vandræðum gagnvart stjórnvöldum vegna aðgerða minna. Lögreglan var á eftir mér þannig að ég varð að flýja landið.“



Milad Waskout.
Með kröfugöngunni vill hópurinn leggja áherslu á fimm kröfur. Í fyrsta lagi að íslensk stjórnvöld hætti brottvísunum, sérstaklega til landa þar sem aðstæður flóttamanna eru óviðunandi. Í öðru lagi að allar umsóknir um alþjóðlega vernd fái efnislega meðferð og þriðja krafan snýr að því að hælisleitendur fái tímabundið atvinnuleyfi. Þá er krafist mannsæmandi heilbrigðisþjónustu og lokun einangrunarbúðanna á Ásbrú.

Milad, sem er menntaður verkfræðingur, segir flesta Íslendinga hafa takmarkaðar upplýsingar um stöðu flóttamanna. „Við viljum reyna að útskýra málin því það eru mjög mismunandi skoðanir á okkur hér.“

Ali Alameri, sem er flóttamaður frá Írak, segir hælisleitendur og íslenska vini þeirra ætla að ganga frá Keflavík til að sýna samfélaginu að þau séu saklaus. „Við erum bara að leita að öruggu lífi. Við erum ekkert að biðja um meira. Við getum unnið fyrir okkur. Ég sótti um atvinnuleyfi fyrir þremur mánuðum og fæ engin svör.“

Ali Alameri.
Hann reyndi síðastliðinn laugardag að ná athygli dómsmálaráðherra á opnum fundi Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakkann.

„Við reyndum að fá fund með dómsmálaráðherra en ég var stöðvaður. Það voru þarna venjulegir borgarar sem sögðust vera lögreglan og hótuðu okkur.“

Ali sem starfaði með bandaríska herliðinu í Írak hefur verið á Íslandi í um fimm mánuði.

Mál hans hefur ekki verið tekið til efnislegrar meðferðar en til stendur að vísa honum til baka til Noregs, þaðan sem hann kom. Þaðan segir Ali að hann yrði sendur til Írak þar sem hann telur líf sitt í hættu.

„Ég var að vinna hjá fjölþjóða sveitum í alþjóðlega verkefninu Operation Iraqi freedom sem Ísland átti aðild að. Þess vegna kom ég til Íslands. Ég er ekki að biðja um að vera gefið hæli, heldur bara að málið mitt verði tekið til meðferðar eins og venjulegs flóttamanns.“


Tengdar fréttir

Hælisleitendur fluttir beint af geðdeild og úr landi: „Það er rangt, ómannúðlegt og að mínum dómi ólöglegt“

Dæmi eru um að andlega veikir hælisleitendur, sem hafa fengið neitun um dvalarleyfi, séu sóttir á geðdeild og fluttir úr landi. Til stóð að ríkislögreglustjóri myndi sækja tuttugu og þriggja ára hælisleitanda frá Afganistan úr nauðungarvistun á geðdeild í nótt. Lögmaður mannsins segir rangt, ómannúðlegt og ólöglegt að stjórnvöld framkvæmi brottvísun á nauðungarvistuðu fólki sem sé hættulegt sjálfu sér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×