Næstkomandi laugardag standa samtökin No borders og Refugees in Iceland fyrir kröfugöngu frá Keflavík til Reykjavíkur. Gengið verður frá húsnæði Útlendingastofnunar fyrir flóttamenn á Ásbrú og endar gangan á Austurvelli.
Milad hefur dvalið á Íslandi frá því í september á síðasta ári. Nú segist hann einfaldlega bíða þess að vera vísað úr landi en beiðni hans um hæli hér á landi hefur verið synjað sem og áfrýjunum.
Milad kom til landsins frá Grikklandi þar sem hann hefur pólitískt hæli. „Ég gat ekki verið þar lengur vegna ástandsins og þess vegna kom ég hingað. Íslensk yfirvöld vilja senda mig aftur til Grikklands en það er eins og helvíti fyrir flóttamenn.“
„Í Íran var ég pólitískur aðgerðasinni. Ég lenti í vandræðum gagnvart stjórnvöldum vegna aðgerða minna. Lögreglan var á eftir mér þannig að ég varð að flýja landið.“

Milad, sem er menntaður verkfræðingur, segir flesta Íslendinga hafa takmarkaðar upplýsingar um stöðu flóttamanna. „Við viljum reyna að útskýra málin því það eru mjög mismunandi skoðanir á okkur hér.“
Ali Alameri, sem er flóttamaður frá Írak, segir hælisleitendur og íslenska vini þeirra ætla að ganga frá Keflavík til að sýna samfélaginu að þau séu saklaus. „Við erum bara að leita að öruggu lífi. Við erum ekkert að biðja um meira. Við getum unnið fyrir okkur. Ég sótti um atvinnuleyfi fyrir þremur mánuðum og fæ engin svör.“

„Við reyndum að fá fund með dómsmálaráðherra en ég var stöðvaður. Það voru þarna venjulegir borgarar sem sögðust vera lögreglan og hótuðu okkur.“
Ali sem starfaði með bandaríska herliðinu í Írak hefur verið á Íslandi í um fimm mánuði.
Mál hans hefur ekki verið tekið til efnislegrar meðferðar en til stendur að vísa honum til baka til Noregs, þaðan sem hann kom. Þaðan segir Ali að hann yrði sendur til Írak þar sem hann telur líf sitt í hættu.
„Ég var að vinna hjá fjölþjóða sveitum í alþjóðlega verkefninu Operation Iraqi freedom sem Ísland átti aðild að. Þess vegna kom ég til Íslands. Ég er ekki að biðja um að vera gefið hæli, heldur bara að málið mitt verði tekið til meðferðar eins og venjulegs flóttamanns.“