Innlent

Fatlaður maður beið í tæpar tvær klukkustundir á Keflavíkurflugvelli eftir sérútbúnum hjólastól sínum

Sighvatur Jónsson skrifar
Fatlaður maður beið í tæpar tvær klukkustundir á Keflavíkurflugvelli í vikunni eftir að sérútbúinn hjólastóll hans var sóttur úr farangursgeymslu flugvélar sem hann var farþegi í.

Fjölskyldan kom heim frá Benidorm síðastliðinn þriðjudag. Magnús hafði legið á sjúkrahúsi ytra vegna lungnabólgu.

Sigríður Magnúsdóttir, móðir Magnúsar, hafði samband við ferðaskrifstofuna og ítrekaði nauðsyn þess að hjólastóll Magnúsar yrði afhentur sem fyrst eftir lendingu í Keflavík.

„Í einn og hálfan klukkutíma biðum við eftir stólnum. Og það var alltaf vísað á Isavia,“ segir Sigríður. Hún segir að þau hafi á endanum verið eina fólkið í fríhöfninni.

„Það voru allir farnir og við stóðum bara og biðum og biðum og við sáum stólinn hinum megin við gluggann.“

Magnús segir að sér hafi liðið illa í venjulegum hjólastól á meðan hann beið eftir sínum.Vísir/Arnar

Leið hræðilega í venjulegum hjólastól

Á meðan beið Magnús í venjulegum hjólastól sem hann segir að veiti sér ekki nægan stuðning.

Hvernig líður þér í þannig stól miðað við hvernig þér líður í þessum stól?

„Mér líður hræðilega. Þessi stóll er sérmótaður fyrir mig, meira að segja höfuðpúðinn er rafknúinn,“ segir Magnús.

Magnús segir að sér hafi liðið sérstaklega illa vegna lungnabólgunnar.

„Því ég var ekki með þennan stuðning, þá féll ég saman og náði á engan máta að fylla lungun og átti bara mjög erfitt,“ segir Magnús.

Sigríður Magnúsdóttir, móðir Magnúsar.Vísir/Arnar

Biðu áður í tvo og hálfa klukkustund

Fjölskyldufaðirinn hringdi í dóttur þeirra sem beið í komusal. Hún hafði samband við tollverði sem komu því til leiðar að hjólastóllinn var sóttur.

Sigríður segir þetta ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist. Fjölskyldan lenti í svipuðu atviki á Keflavíkurflugvelli fyrir þremur árum.

„Þá biðum við í tvo og hálfan tíma á Keflavíkurflugvelli eftir stólnum. Okkur finnst þetta skelfilegt að leggja þetta á fatlað lasið fólk og getum ekki skilið af hverju þetta þarf að vera svona,“ segir Sigríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×