Innlent

Tala fyrir samningunum

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins. Vísir/Vilhelm
„Við töldum okkur ekki komast lengra og við teljum þennan samning vera góðan og í rauninni stór tímamót hjá okkur að ná þessu sem við náðum,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður samflots iðnaðarmanna. Samningar við Samtök atvinnulífsins (SA) tókust fyrir helgi og ná til um 13 þúsund manns.

„Það er alveg klárlega þannig að menn munu tala fyrir þessum samningum. Ég ætla að vona að þetta fái góðar viðtökur hjá félagsmönnum,“ segir Kristján.

Byggt er á ramma sem mótaður var í lífskjarasamningnum. Kristján segir þó að stórt skref hafi verið stigið í átt að styttingu vinnuvikunnar.

„Í lok samningstímans geta iðnaðarmenn einhliða náð að stytta vinnutímann hjá sér án þess að vilji fyrirtækjanna sé til staðar sem slíkur.“

Kristján segir að kynningar á samningnum muni væntanlega hefjast í þessari viku. Atkvæðagreiðslur standa til 21. maí. Í tilkynningu frá SA segir að nú hafi samningar verið gerðir fyrir um 90 prósent starfsmanna á almenna vinnumarkaðnum.

Enn eru þrjú mál á borði ríkissáttasemjara en þar eiga í hlut mjólkurfræðingar, flugfreyjur hjá Icelandair og flugumferðarstjórar.

Einar Ágúst Ingvarsson, formaður Mjólkurfræðingafélags Íslands, segir að viðræður félagsins hafi verið settar í bið meðan beðið var eftir samningi iðnaðarmanna. Það liggi nokkurn veginn fyrir að samið verði á svipuðum nótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×