Erlent

Rekinn eftir að hafa birt mynd af apa í tengslum við fæðingu Archie

Atli Ísleifsson skrifar
Danny Baker.
Danny Baker. Getty
Breski fjölmiðlamaðurinn og skemmtikrafturinn Danny Baker hefur verið rekinn frá BBC eftir að hann birti mynd af simpansa á Twitter-síðu sinni með textanum „konunglega barnið yfirgefur sjúkrahúsið“.

Baker hefur nú eytt tístinu og beðist afsökunar. „Ég hefði notað sömu heimskulegu mynd ef um annað konunglegt barn hefði verið að ræða, barn Boris Johnson eða þess vegna mitt eigið. Þetta er fyndin mynd,“ segir Baker.

Á umræddri mynd, sem talin er vera frá þriðja áratug síðustu aldar, má sjá vel klætt par þar sem það leiðir simpansa íklæddum fötum.

Margir gagnrýndu Baker eftir að hann birti myndina þar sem hún var talin rasísk vegna húðlitar Meghan. Doria Ragland, móðir Meghan sem kom sérstaklega frá Los Angeles vegna komu barnabarnsins, er svört, en faðir hennar hvítur.

Meghan og Harry Bretaprins með Archie litla.Getty
Talsmaður BBC segir Baker hafa sýnt fram á alvarlegan dómgreindarbrest og að tístið stríði gegn gildum BBC. Baker muni því ekki stýra vikulegum útvarpsþætti sínum hjá BBC framar.

Hinn 61 árs Baker hefur beðist afsökunar og segir að með myndinni hafi hann ætlað sér að benda á að komið sé fram við meðlimi konungsfjölskyldunnar líkt og um sirkusdýr væri að ræða. Einnig segir hann BBC hafa „kastað honum fyrir rútu“.

Arche Harrison Mountbatten-Windsor, sonur Meghan og Harry Bretaprins, kom í heiminn á mánudaginn. Að ósk foreldranna mun hann ekki fá sérstakan titil, „jarl“, heldur verður þess í stað kallaður Master.

Að neðan má sjá tíst Baker þar sem hann biðst afsökunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×