Erlent

„Við sjáum að heimamenn eru niðurbrotnir“

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Sprengt var í kirkju St. Sebastian í norðurhluta Kólombó.
Sprengt var í kirkju St. Sebastian í norðurhluta Kólombó. Getty/Stringer
Parið Margrét Lilja Stefánsdóttir og Sigurjón Þór Guðmundsson eru stödd í fjallaþorpinu Nuwara Eliya í Srí Lanka, en þau hafa verið á ferðalagi um landið. Mannskæðar árásir hafa staðið yfir í dag í höfuðborg landsins, Kólombó, sem beint hefur verið að kirkjum og hótelum í borginni.

Rúmlega 200 manns hafa látið lífið og 450 slasast en fljótlega eftir að árásahrynan byrjaði var lokað á alla samfélagsmiðla á eyjunni og útgöngubann var sett á.

Í samtali við vísi segir Margrét að þau séu óhult en þau hafi þurft að hafa samband við fjölskyldur sínar í gegnum tölvupóst vegna lokunar allra samfélagsmiðla. „Við ættum að vera örugg hér en það er samt sem áður útgöngubann þar til kl. 06.00 í fyrramálið og við tökum stöðuna þá hvort það sé öruggt fyrir okkur að færa okkur yfir í næsta bæ. Við erum með einkabílstjóra sem passar vel upp á okkur og fylgist vel með gangi mála.“

Allar búðir og veitingastaðir eru lokaðir og fólk heldur sig innandyra, en tilkynnt hefur verið um átta sprengingar, sem bæði hafa orðið í kirkjum og á hótelum.

„Við sjáum að heimamenn eru niðurbrotnir yfir þessum atburðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×