Fótbolti

Tékkneskur landsliðsframherji lést í rútuslysi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josef Sural.
Josef Sural. AP/Matthias Schrader
Tékkneski landsliðsframherjinn Josef Sural lést eftir að hafa lent í rútuslysi ásamt félögum sínum í tyrkneska félaginu Aytemiz Alanyaspor.

Josef Sural var 28 ára gamall en sex aðrir leikmenn Aytemiz Alanyaspor voru fluttir á sjúkrahús.

Þessir leikmenn Aytemiz Alanyaspor höfðu tekið smárútu á leigu.

Hasan Cavusogl, stjórnarformaður félagsins, hélt því fram að bílstjórinn hefði sofnað við stýrið. BBC hefur líka eftir honum að hinir sex leikmennirnir séu ekki mikið slasaðir.





Steven Caulker og Papiss Cissé, sem menn þekkja úr enska fótboltanum voru meðal þeirra sex sem sluppu lítið meiddur úr bílslysinu.

Fréttir herma að aðstoðarökumaðurinn hafi einnig verið sofandi þegar slysið varð tæpum fimm kílómetrum frá Alanya, heimaborg félagsins.

Alanyaspor var að spila útileik á móti Kayserispor í gær og gerði þá 1-1 jafntefli. Sural var ónotaður varamaður í leiknum.    

Sural skoraði eitt mark í níu leikjum með Alanyaspor í tyrknesku deildinni en hann kom til félagsins í janúar.

Josef Sural lék 20 landsleiki fyrir Tékka þar á meðal einn á móti íslenska landsliðinu árið 2017. Síðasti landsleikur hans var á móti Úkraínu í október síðastliðnum.

Josef Sural var frekar nýkominn til Aytemiz Alanyaspor sem var hans fyrsta félag utan heimalandsins. Hann lék áður með Sparta Prag frá 2016 til 2018 en þar áður í fimm ár hjá Slovan Liberec.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×