Erlent

Opinbera fyrstu myndina af svartholi

Atli Ísleifsson skrifar
Teikning af svartholi. Myndin verður kynnt síðar í dag.
Teikning af svartholi. Myndin verður kynnt síðar í dag. Getty
Vísindamenn hafa náð fyrstu ljósmyndinni af svartholi og verður hún birt opinberlega á fréttamannafundi klukkan 13 í dag. Ítarlega umfjöllun um myndina má finna hér.

Í tilkynningu frá Sævari Helga Bragasyni, fulltrúa Stjórnstöðvar Evrópulanda á suðurhveli (e. European Southern Observatory). Segir að myndin sé af risasvartholi í miðju vetrarbrautar sem heitir Messier 87. Sé vetrarbrautin sú stærsta í „nágrenni okkar“ í geimnum, um 55 milljón ljósár í burtu. Hægt verður að sjá myndina og fréttatilkynninguna á vef ESO klukkan 13.

„Svartholið er því jafnframt hið stærsta í okkar næsta nágrenni í geimnum. Það vegur á við 6,5 milljarða sóla. Það er 40 milljarðar km í þvermál eða sjö sinnum breiðara en bilið á milli sólar og Plútós. Það tæki geimfar eins og Voyager - hraðfleygasta hlut sem menn hafa smíðað - 74 ár að ferðast þá vegalengd.

Á myndinni sést skugginn sem svartholið varpar á gasskífu sem umlykur það. 

Myndin er afrakstur vinnu meira en 200 vísindamanna um allan heim sem saman unnu að smíði Event Horizon Telescope eða Sjóndeildarsjónaukans. Sjónaukinn dregur nafn sitt af mörkunum eða jaðri svartholsins þaðan sem ekkert sleppur burt. Sjónaukinn er settur saman úr 8 samtengdum útvarpssjónaukum um allan heim svo úr fæst sjónauki á stærð við Jörðina. 

Þessi sögulega ljósmynd birtist á 100 ára afmæli fyrstu tilraunarinnar sem staðfesti almennu afstæðiskenningu Einsteins,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×