Innlent

Strokufangi náðist á hlaupum frá fangelsinu á Akureyri

Andri Eysteinsson skrifar
Frá Akureyri hvar fangi reyndi að sleppa úr haldi.
Frá Akureyri hvar fangi reyndi að sleppa úr haldi. Vísir/Vilhelm
Fangi í fangelsinu á Akureyri gerði fyrr í dag tilraun til að strjúka. Fanginn komst út úr fangelsinu en var hlaupinn uppi af vöskum fangaverði. Um er að ræða fyrsta strokið af lokuðu fangelsi frá árinu 2012 þegar Matthías Máni Erlingsson strauk af Litla-Hrauni skömmu fyrir jól. RÚV greindi fyrst frá.

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir í samtali við Vísi að atvikið hafi komið upp þegar opnað var inn á fangaálmuna. Strok eða tilraunir til stroks eru alvarlegustu agabrotin í íslenskum fangelsum. Strok getur haft áhrif á ýmislegt í lífi fanga og verður honum til refsiauka. Páll Winkel segir að strok séu fátíð einna helst vegna þess hversu alvarlegar afleiðingarnar eru fyrir strokufangann.

Páll segir að taki fangi upp á því að reyna að strjúka geti það orðið til þess að refsitími hans í lokuðu lengist, möguleikar á reynslulausn minnka og sama gildir um möguleikann á að komast á áfangaheimili eða að afplána með ökklaband. Fangelsið á Akureyri er minnsta fangelsi landsins og afplána nú um 10 fangar þar.

Fangarnir sem þar afplána eru í flestum tilfellum ekki taldir hættulegir fangar. Í samtali við fréttastofu lýsti fangelsismálastjóri yfir ánægju sinni yfir viðbrögðum og vinnubrögðum starfsfólks.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.