Innlent

„Hann var útbúinn svolítið eins og Rambó“

MYND/FRÉTTASTOFA

„Það er umhugsunarvert hversu vel Matthías Máni var vopnaður," segir Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á blaðamannafundi. Matthías Máni Erlingsson, sem strauk af Litla-Hrauni á mánudag fyrir viku, gaf sig fram við lögreglu í nótt. Hann bankaði upp á bæ á Ásólfsstöðum í Þjórsárdal. Þá var hann vel vopnum búinn, með riffil, þrjá hnífa og exi svo dæmi séu nefnd. Lögreglan telur að flótti hans úr fangelsinu hafi verið mjög vel undirbúinn.

„Hann var útbúinn svolítið eins og Rambó," sagði Arnar Rúnar á fundinum. Hann sagði líka að í samtali Matthíasar við bóndann á Ásólfsstað hefði komið fram að Matthías hefið ferðast í tungsljósinu á nóttunni en legið í felum á daginn.

Ekki er búið að yfirheyra Matthías Mána. Arnar Rúnar segir að lögreglan hafi notið aðstoðar frá björgunarsveitum við leitina en sú leit hafi einungis farið fram við fangelsið. Ólíklegt þykir að Matthías Máni hafi verið með vopn þar. Þá hafi lögreglumenn verið með björgunarsveitamönnunum í leitinni, þannig að björgunarsveitamenn nutu verndar. Þegar lögreglan hafi farið inn í hús, þar sem grunur lék á að Matthías væri, voru vopnaðir sérsveitamenn aftur á móti með í för. Ekki liggur fyrir hvernig Matthías komst yfir vopnin en hann verður yfirheyrður í dag. Þá liggur ekki fyrir hvort Matthías hafi átt sér vitorðsmann á flóttanum.

Arnar Rúnar ítrekaði á fundinum að Matthías hefði gefið sig fram fjölskyldu sinnar vegna og ekki síst móður sinnar.

Fram kom í fjölmiðlum um helgina að lögregluna grunaði að hann væri á Suðurlandi. Þá helst í Laugarási í Biskupstungum, í Hveragerði eða að Laugarvatni.

Engar tilkynningar hafa borist um innbrot í sumarbústaði á svæðinu frá því að Matthías strauk úr fangelsinu. Lögreglan hvetur sumarhúsaeigendur til að kanna hvort farið hafi verið inn í sumarhús þeirra.


Tengdar fréttir

Strokufanginn kominn á Litla-Hraun

Matthías Máni Erlingsson er kominn aftur á Litla-Hraun. Lögregla sótti hann á bæ á Ásólfsstöðum, nærri Laugarási í Biskupstungum, rétt eftir klukkan fimm í morgun og var hann umsvifalaust fluttur aftur á Litla-Hraun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×