Innlent

Sala á neftóbaki hefur aukist um fimmtung

Ari Brynjólfsson skrifar
Alls seldist 44.671 kíló af neftóbaki
í fyrra.
Alls seldist 44.671 kíló af neftóbaki í fyrra. Fréttablaðið/Anton Brink
Sala á íslensku neftóbaki jókst um 19 prósent í fyrra. Fram kemur í ársskýrslu ÁTVR að 44.671 kíló af neftóbaki hafi selst í fyrra. Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Embætti landlæknis, segir að aukning sé í notkun neftóbaks í vör hjá yngri konum.

Verð á dollu af neftóbaki hefur hækkað um nokkur hundruð prósent á áratug, var það gert til að sporna við notkun þess í vör meðal ungs fólks. Hann segir verðstýringu áhrifaríkustu leiðina til að draga úr tóbaksnotkun.

Samkvæmt nýjustu tölum landlæknis hefur notkun ungra karla staðið í stað, er nú um fimmtungur karla á aldrinum 18 til 34 ára sem notar neftóbak í vör ýmist daglega eða reglulega. Það séu hins vegar nýmæli að hlutfallið sé að aukast hjá konum, en í fyrra var hlutfallið komið upp í sjö prósent. Viðar segir þessa þróun ekki einskorðaða við Ísland.

„Norðmenn hafa verið að sjá aukningu í notkun á tóbaki í vör á meðal ungra kvenna og hafa lýst áhyggjum af því, meðal annars með því að kalla eftir auknum viðvörunarmerkingum á munntóbaki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×