Innlent

Málum um ofbeldi gegn lögreglu fjölgar milli mánaða

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Fíkniefnabrotum fjölgaði mikið í marsmánuði.
Fíkniefnabrotum fjölgaði mikið í marsmánuði. Fréttablaðið/Andri Marinó

Skráð mál um ofbeldi gagnvart lögreglumönnum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa verið 25 prósentum fleiri það sem af er ári, miðað við sama tímabil síðustu þriggja ára. Ellefu slík mál voru skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í mars og hafa ekki verið fleiri síðan í nóvember 2016. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir febrúarmánuð.

Öðrum ofbeldisbrotum fækkaði hins vegar í febrúar miðað við síðustu mánuði á undan og hafa skráð ofbeldisbrot ekki verið færri síðan í febrúar 2017.

Fíkniefnabrotum, fíkniefnaakstri og ölvunarakstursbrotum fjölgaði líka mikið í síðasta mánuði. Marsmánuður var metmánuður í skráðum fíkniefnaakstursmálum þegar skráð voru 186 slík mál. Fleiri mál hafa ekki verið skráð í einum mánuði frá því lögum og verklagi lögreglu vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna var breytt árið 2006, en í þarsíðasta mánuði voru málin litlu færri eða 184. Í samantekt lögreglu um tölfræðina kemur einnig fram að skráð mál ölvunar- og fíkniefnaaksturs á fyrstu þremur mánuðum ársins eru tæplega fimmtíu prósent fleiri en á sama tímabili síðustu þrjú ár.

Tilkynningum um þjófnaði fjölgaði einnig milli mánaða og hlutfallslega er fjölgunin mest vegna farsíma og reiðhjóla. Tilkynningum um innbrot fækkaði hins vegar í samanburði við tölur síðustu sex og tólf mánaða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.