Innlent

Stór hópur fólks af er­lendum upp­runa á at­vinnu­leysis­skrá á Suður­nesjum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir,  er verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ.
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, er verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ.
252 hafa skráð sig á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum síðan WOW air féll þremur vikum. 35 prósent eru með erlent ríkisfang og stór hluti er barnafólk. Verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ segir mikla áskorun fram undan.

Atvinnuleysi mælist hvergi meira en á Suðurnesjum, einkum vegna samdráttar í flugrekstri og tengdum greinum í flutningum og ferðaþjónustu.

Eftir gjaldþrot WOW air þann 28. mars síðastliðinn hafa 252 skráð sig á atvinnuleysisskrá  á Suðurnesjum. 35 prósent af þeim eru með erlent ríkisfang.

Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir,  er verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ.

„Hér er hátt hlutfall íbúa af erlendum uppruna sem að missa vinnuna og það er auðvitað sérstöð áskorun að koma til móts við þann hóp með íslenskukennslu, með mati á menntun og mati á starfsgetu fólks,“ segir Hilma.

Mikilvægast sé að fólki sé gefið tækifæri til þátttöku í samfélaginu.

„Vinnumarkaðurinn hefur verið þannig að það hefur verið meiri áskorun fyrir fólk af erlendum uppruna að komast í ný störf.“

Stór hópur fólks af erlendum uppruna á atvinnuleysisskrá sé sérstakt áhyggjuefni. Þá eru flestir nýskráðir á atvinnuleysisskrá á aldursbilinu 18-49 ára og að sögn Hilmu mörg börn á bak við það fólk.

„Þetta er fólk á vinnumarkaðsaldri og það fólk er með börn. Þá erum við líka að skoða þjónustuna sem Reykjanesbær er að veita, hvort fólk er að segja upp þjónustu sem við erum með hér þannig að við erum alveg á tánum þar,“ segir Hilma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×