Fótbolti

Framherji Juventus varð fyrir kynþáttafordómum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kean fagnar marki sínu í gær.
Kean fagnar marki sínu í gær. vísir/getty
Hinn efnilegi framherji Juventus, Moise Kean, mátti þola kynþáttaníð úr stúkunni í gær er Juventus spilaði gegn Cagliari. Hinn 19 ára Kean átti þó síðasta orðið því hann skoraði síðara mark Juve á 85. mínútu í 2-0 sigri.

Er hann fagnaði markinu þá lyfti hann upp höndunum eins og hann væri að spyrja af hverju fólkið væri að haga sér. Þá fékk hann yfir sig enn meiri skít.

„Þetta er besta leiðin til þess að svara fyrir sig,“ skrifaði Kean á Instagram eftir leikinn.

Eins einkennilegt og það er þá skammaði þjálfari Juventus, Massimiliano Allegri, strákinn fyrir svara svona og ögra níðingunum í stúkunni.

„Hann hefði ekki átt að fagna svona. Hann er ungur og þarf að læra. Auðvitað eiga samt ákveðnir hlutir ekki að heyrast úr stúkunni,“ sagði Allegri sem fannst fagnið greinilega alvarlegra en níðið.

Hann bætti þó um betur í viðtali síðar og sagði þessa áhorfendur vera hálfvita sem skemmdu fyrir öllum honum. Svo lét hann knattspyrnusambandið heyra það fyrir að hafa ekki kjark til þess að taka á svona málum í ítalska boltanum.

„Við þurfum að nota myndavélarnar og refsa þessu fólki. Þá er ég ekki bara að tala um eins eða tveggja ára bann. Ég er að tala um lífstíðarbann,“ sagði Allegri.

Liðsfélagi Kean, Blaise Matuidi, brjálaðist er kynþáttaníðið byrjaði enda lent í slíku áður á sama velli. Hann kvartaði í dómaranum og hótaði að labba af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×