Innlent

Framlag stjórnvalda til lífskjarasamninga metið á hundrað milljarða

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Vísir/vilhelm
Framlag ríkisstjórnarinnar til hinna svokölluðu lífskjarasamninga er metið á hundrað milljarða króna á gildistíma þeirra samkvæmt heimildum Kjarnans.

Í umfjöllun miðilsins kemur fram að á meðal aðgerða ríkisstjórnarinnar sé þróun Keldnalands undir íbúðabyggð, hækkun ráðstöfunartekna í lægsta skattþrepinu um tíu þúsund krónur á mánuði og nýjar leiðir til að hjálpa við kaup á húsnæði.

Samkomulag ríkisins og Reykjavíkurborgar um að hefja skipulagningu Keldnalands var á meðal tillagna sem átakshópur í húsnæðismálum gerði grein fyrir í lok janúar. Hópurinn telur að skipulag Keldna, og eftir atvikum Keldnaholts, ætti að taka mið af „Carlsberg-ákvæðinu“ að danskri fyrirmynd með áherslu á samvinnu og einfaldara regluverk.

Í viðtali við Heimi Má Pétursson í forsætisráðuneytinu í gærkvöldi var Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, tíðrætt um úrræði til handa ungu fólki og sér í lagi ungum foreldrum sem er hópur sem hefur setið eftir í launaþróun. 

Aðgerðir stjórnvalda snúist þannig fyrst og fremst um að draga úr vægi verðtryggingar, húsnæðismál og ungt fólk.

Sjá nánar: Verkalýðshreyfingin bað um frest til að komast lengra í viðræðum

Heimildir Kjarnans herma að framlengja eigi um tvö ár heimildina að nota séreignasparnað til að greiða inn á lán. Þar segir jafnframt að kanna eigi að veita sérstök hlutdeildarlán til fyrstu íbúðarkaupenda sem myndu þá bera lægri vexti og afborganir fyrstu árin. Þetta myndi auðvelda hópnum að komast inn á eignamarkað.

Til skoðunar sé þá einnig að hækka skerðingarmörk barnabóta í 325 þúsund krónur á mánuði á næsta ári og að lengja fæðingarorlof í tíu mánuði á árinu 2020 og þá í tólf mánuði frá byrjun árs 2021.


Tengdar fréttir

Tala fyrir Carlsberg-ákvæði að Keldum

Einföldun ferla, endurskoðum byggingarreglugerðar og innleiðing Carlsberg-ákvæðis að danskri fyrirmynd eru meðal tillagna átakshópsins í húsnæðismálum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×