Fótbolti

Eiður Smári túrar með Evrópudeildarbikarinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður og Evrópudeildarbikarinn.
Eiður og Evrópudeildarbikarinn. vísir/getty
Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins, er staddur í London og með í för er Evrópudeildarbikarinn.

Eiður kynnti bikarinn fyrir áhugasömum krökkum í Three Rivers akademíunni í London í dag. Hann ræddi við krakkana, gaf eiginhandaráritanir og stillti sér upp á myndum með þeim.

Eiður endurtekur leikinn á morgun, þá ásamt David Seaman, fyrrverandi markverði Arsenal og enska landsliðsins.

Á sínum langa ferli vann Eiður fjölmarga titla. Evrópudeildin var þó ekki þar á meðal. Eiður er nú aðstoðarþjálfari Arnars Þórs Viðarssonar með íslenska U-21 árs landsliðið.

Fyrri leikirnir í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar fara fram næsta fimmtudag. Gamla liðið hans Eiðs, Chelsea, mætir þar Slavia Prag. Arsenal, hitt Lundúnaliðið sem er eftir í keppninni, mætir Napoli.

Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar fer fram á Ólympíuleikvanginum í Bakú í Aserbaídsjan 29. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×