Lífið

Mick Jagger á batavegi eftir hjartaaðgerð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mick Jagger á tónleikum með Rolling Stones í Portúgal fyrir nokkrum árum.
Mick Jagger á tónleikum með Rolling Stones í Portúgal fyrir nokkrum árum. vísir/getty
Rokkstjarnan Mick Jagger, söngvari Rolling Stones, er á batavegi eftir að hafa undirgengist hjartaaðgerð þar sem skipt var um hjartaloku.

Vegna aðgerðar söngvarans, sem er orðinn 75 ára gamall, hefur bandið þurft að fresta fyrirhugaðri tónleikaferð sinni. Hafa erlendir miðlar greint frá því að túrinn byrji í júlí en enn á eftir að tilkynna um nýjar dagsetningar.

Jagger fór í aðgerðina í New York nú í vikunni. Í dag þakkaði hann aðdáendum fyrir stuðninginn í færslu á Twitter og sagði að sér liði miklu betur. Þá þakkaði hann heilbrigðisstarfsfólki fyrir frábært starf.

Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir, fjallar um aðgerð söngvarans í færslu á Facebook-síðu sinni og útskýrir hvað í henni felst:

„Ein helsta fréttin í bæði popp- og hjartaskurðpressunni í dag er að rokkstjarnan fékk nýja hjartaloku í NY. Aðgerðin var svokölluð TAVI aðgerð - en þá er lífrænni loku komið fyrir í hjartanu í gegnum slagæð í náranum. Slíkar aðgerðir eru gerðar á LSH og hefði rokkgoðið því getað látið gera þetta á Klakanum.“

Þegar tilkynnt var um það fyrir tæpri viku að tónleikaferðalagi Rolling Stones hefði verið frestað var ástæðan sögð heilsa Jagger. Læknir hefði ráðlagt honum að hann gæti ekki farið á túr þar sem hann þyrfti að komast undir læknishendur.

Í yfirlýsingu sem Jagger sendi þá frá sér kvaðst hann vera miður sín yfir því að bregðast aðdáendum sveitarinnar.

„Ég er eyðilagður yfir því að þurfa að fresta túrnum en ég mun leggja mjög hart að mér að komast á aftur á svið eins fljótt og hægt er,“ sagði Jagger.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×