Erlent

Bandarísk kona og leiðsögumaður laus úr haldi mannræningja í Úganda

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólkinu var rænt í Queen Elizabeth þjóðgarðinum á þriðjudaginn.
Fólkinu var rænt í Queen Elizabeth þjóðgarðinum á þriðjudaginn. Vísir/getty
Bandarískri konu og leiðsögumanni hennar hefur verið bjargað úr haldi mannræningja í Úganda. Fjórir vopnaðir menn rifu fólkið úr safari-bíl sem þau voru í í Queen Elizabeth þjóðgarðinum á þriðjudaginn og fóru þeir fram á hálfa milljón dala. Lögreglan sagði fólkið við góða heilsu en gaf ekki upp hvernig þeim hafi verið bjargað.

Talskona lögreglunnar hrósaði lögreglunni, hernum og öðrum vegna björgunarinnar. Talsmaður ríkisstjórnar Úganda sagði í dag að öryggissveitir hefðu bjargað fólkinu.

Framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins sem maðurinn starfar hjá sagði AFP fréttaveitunni þó að lausnargjald hefði verið greitt. Hann vissi ekki hve mikið hefði verið greitt.



Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagðist í vikunni skilja að fólk væri tilbúið til að gera hvað sem er til að bjarga vinum og fjölskyldu. Það að borga mannræningjum lausnargjald leiddi þó eingöngu til fleiri mannrána.



Úganda deilir landamærum með Kongó, þar sem mikil óöld ríkir, og liggur þjóðgarðurinn við landamærin. Annar þjóðgarður, sem kallast Virunga, er einnig nærri landamærunum og en honum var lokað í fyrra eftir að starfsmaður var myrtur og tveimur ferðamönnum frá Bretlandi og ökumanni þeirra var rænt. Sá garður var opnaður á nýjan leik í febrúar.

Ferðaþjónusta er mikilvægur iðnaður í Úganda og þangað fara hundruð þúsunda ferðamanna á ári hverju.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×