Fótbolti

Freyr: Langt síðan að leikmenn voru í jafn góðu ástandi og nú

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Peralada skrifar
Freyr Alexandersson segir að það sé orka og hungur í leikmönnum íslenska landsliðsins sem leikur gegn Andorra í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2020 á föstudag. Freyr er ánægður með ástand leikmanna.

„Undirbúningurinn hefur gengið gríðarlega vel. Leikmenn komu í mjög góðu ástandi, því langbesta síðan að Erik Hamren tók til starfa hjá KSÍ. Ég hef verið lengur í kringum liðið og ég held að það sé langt síðan að leikmennirnir voru í svona góðu ástandi,“ sagði Freyr í samtali við Vísi fyrir æfingu íslenska liðsins í Peralada á Spáni í morgun.

„Við vorum líka heppnir að því leyti að fáir voru að spila á sunnudag og komu því ferskir til okkar á mánudaginn.“

„Það er orka í hópnum og hungur líka. Það hlakkar öllum til að mæta og spila þennan leik á föstudag.“

Freyr sagði að sú breyting sem þurfti að gera á íslenska hópnum vegna meiðsla Björns Bergmanns Sigurðarsonar en Viðar Örn Kjartansson kom inn í hans stað.

„Það breytti litlu í okkar undirbúningi. Þeir eru ólíkar týpur þó svo að báðir séu framherjar. Viðar hentar okkur mjög vel gegn Andorra og Björn hefði hentað gríðarlega vel á móti Frakklandi. Það eru smá áherslubreytingar sem þetta útheimtir en ekkert stórvægilegt.“

Landsliðsþjálfararnir Erik Hamrén og Freyr Alexandersson.vísir/getty
Skerpa það sem við gerum vel

Ísland ætlar sér í lokakeppni EM 2020 en Freyr segir að skilaboð þjálfaranna til leikmanna hafi verið skýr í aðdraganda nýrrar undankeppni.

„Við viljum sækja í það sem við stöndum fyrir, fyrst og fremst. Við viljum skerpa það sem við erum góðir í og vera vel meðvitaðir um hverjir veikleikar andstæðinganna eru og gera það sem við getum til að meiða þá.“

„En við höfum líka lagt í ákveðna grunnvinnu um það sem við viljum standa fyrir í þessari keppni og hvernig við viljum spila. Það er góð dínamík í hópnum þessa dagana.“

Vísir fylgir eftir strákunum okkar á leið þeirra á lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu. Stöð 2 Sport sýnir fjölda leikja í undankeppninni næstu daga, fylgstu með dagskránni á stod2.is.


Tengdar fréttir

Viðar Örn kallaður inn í A-landsliðið

Viðar Örn Kjartansson hefur verið kallaður inn í hóp Íslands fyrir leiki liðsins gegn Andorra og Frakklandi en þetta eru tveir fyrstu leikir íslenska landsliðsins í undankeppni EM 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×