Erlent

Karadzic dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir þjóðarmorð

Kjartan Kjartansson skrifar
Karadzic er sagður ekki hafa sýnt svipbrigði þegar dómurinn var kveðinn upp í Haag í dag.
Karadzic er sagður ekki hafa sýnt svipbrigði þegar dómurinn var kveðinn upp í Haag í dag. Vísir/EPA

Áfrýjunardómstóll Sameinuðu þjóðanna lengdi fangelsisdóm yfir Radovan Karadzic, fyrrverandi leiðtoga Bosníu-Serba, og dæmdi hann í lífstíðarfangelsi í dag. Karadzic hafði hlotið fjörutíu ára dóm vegna fjöldamorðsins í Srebrenica í Bosníustríðinu árið 1995.

Dómararnir tjáðu Karadzic að upphaflegi dómurinn yfir honum árið 2016 hefði verið of vægur í ljósi alvarlega glæpa hans og ábyrgðar hans á þeim, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Karadzic var gefið að sök að hafa skipulagt fjöldamorðið í Srebrenica sem er talið versti stríðsglæpur í sögu Evrópu eftir síðari heimsstyrjöldina. Þar slátruðu hermenn Bosníu-Serba hátt í átta þúsund karlmönnum og drengum af múslimatrú á svæði sem hollenskir friðargæsluliðar áttu að gæta á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Hann var einnig fundinn sekur um að hafa borið ábyrgð á umsátri um Sarajevó. Talið er að tíu þúsund manns hafi látið lífið fyrir hendi leyniskyttna og af völdum sprengjukúlna á þremur árum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Sjálfur hefur Karadzic, sem er 73 ára gamall, vísað öllum ásökunum á hendur sér á bug. Hann hefur fullyrt að hann hafi verið sakfelldur á grundvelli „orðróma“ og að sögur um útskúfun múslima og Króata á 10. áratugnum hafi verið „goðsögn“.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.