Innlent

Ætla ekki að skrifa undir

Ari Brynjólfsson skrifar
Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ.
Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ. Fréttablaðið/Valli
Hvorki Öryrkjabandalagið né Alþýðusambandið ætla að skrifa undir skýrslu samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra skipaði hópinn í apríl 2018 og til stóð að vinnunni yrði lokið síðasta haust. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í ræðu á þingi á þriðjudaginn að vinna starfshópsins væri á lokametrunum.

Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, segir í samtali við Fréttablaðið að hvorki ÖBÍ né ASÍ ætli að skrifa undir skýrsluna.

„Stjórn ÖBÍ treysti sér ekki til að skrifa undir þetta vegna þess að við sjáum ekki að þetta verði fötluðu fólki til framdráttar. Framfærslan er ekki tryggð og það er mjög óljóst hvernig kerfið verður byggt upp,“ segir Halldór Sævar. Þar að auki sé ekki skýrt að afnema eigi tekjuskerðingar.

Til stóð að skrifa undir skýrsluna í síðustu viku, fundurinn var afboðaður eftir að afstaða ÖBÍ lá fyrir. Ekki er búið að boða annan fund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×