Fótbolti

Öruggt hjá Ítölum og Grikkjum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Moise Kean fagnar marki sínu
Moise Kean fagnar marki sínu vísir/getty
Ítalir unnu tveggja marka sigur á Finnum í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2020. Grikkir unnu útisigur á lærisveinum Helga Kolviðssonar í Liechtenstein.

Ítalir voru ekki lengi að komast yfir gegn Finnum en Nicolo Barella skoraði eftir aðeins sjö mínútna leik með langskoti. Það var eina mark fyrri hálfleiks og fóru Ítalir með forystu inn í hálfleikinn.

Á 75. mínútu skoraði Moise Kean annað mark Ítala eftir sendingu frá Ciro Immobile og tryggði sigur heimamanna. Leiknum lauk með 2-0 sigri.

Grikkir voru með mikla yfirburði í Liechtenstein og unnu sannfærandi 2-0 sigur. Leikmenn Liechtenstein náðu ekki einu skoti á markrammann og voru aðeins 27 prósent með boltann.

Fyrsta mark leiksins skoraði Konstantinos Fortounis í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Anastasios Donis fullkomnaði sigurinn með öðru marki Grikkja á 80. mínútu.

Bosnía og Herzegovína vann 2-1 sigur á Armeníu.

Öll liðin leika í J-riðli. Grikkir, Ítalir og Bosníumenn eru því með þrjú stig eftir fyrstu umferðina í riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×