Fótbolti

Messi og Ronaldo snúa til baka í landsliðin sín á sama tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. Getty/Lars Baron
Lionel Messi og Cristiano Ronaldo duttu út af HM á sama degi og snúa líka til baka í landsliðin sín á sama tíma

Argentínumaðurinn Lionel Messi og Portúgalann Cristiano Ronaldo verða að eilífu tengdir sem tveir langbestu knattspyrnumenn heims á sínum tíma. Þeir virðast líka oft fylgjast að og svara stórleik hins með stórleik hjá sér.

Nú snúa þeir báðir aftur í landslið sín á sama tíma eftir að hafa tekið sér frí frá landsliðinu síðan á heimsmeistaramótinu í Rússlandi sem var vonbrigðarmót fyrir þá báða. Báðir duttu þeir út með sínum liðum í sextán liða úrslitum og meira segja á sama degi eða 30. júní.





Sumir telja þetta hafa verið síðasti möguleiki þeirra beggja að verða heimsmeistari og það tók þá greinilega báða langan tíma að jafna sig.

Í kvöld klæðast þeir hins vegar landsliðstreyjum sínum á ný. Lionel Messi spilar vináttulandsleik með Argentínu á móti Venesúela í Madrid og Cristiano Ronaldo spilar fyrsta leik Portúgal í undankeppni EM 2020 sem er á móti Úkraínu í Lissabon.

Þeir hafa báðir misst af síðustu sex landsleikjum sinna þjóða. Þeir eru líka báðir spila stuttu eftir að hafa boðið upp á magnaða frammistöðu í Meistaradeildinni. Cristiano Ronaldo skoraði þrennu fyrir Juventus á móti hinni gríðarsterku vörn Atletico Madrid og Messi var með tvö mörk og tvær stoðsendingar í sigri Barcelona á Lyon. Messi bætti síðan um betur og skoraði magnaða þrennu í deildarleik á sunnudaginn.



Cristiano Ronaldo er orðinn 34 ára gamall og hefur skorað 85 mörk í 154 landsleikjum. Joao Cancelo, varnarmaður Portúgals var ánægður að fá stórstjörnuna aftur inn í landsliðið. „Cristiano kemur með gæði inn í öll lið. Það er okkur mikil ánægja að spila með honum og hann er mjög mikilvægur fyrir okkur,“ sagði Joao Cancelo.

Lionel Messi er 31 árs og hefur skorað 65 mörk í 128 landsleikjum. „Það er mikil gleði fyrir mig og alla aðra að hann sé kominn til baka. Við erum allir mjög ánægðir,“ sagði Lionel Scaloni, þjálfari argentínska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×