Fótbolti

Ísland hefur ekki tapað fyrsta leik í undankeppni stórmóts í níu ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Daði Böðvarsson skoraði sitt fyrsta mark í mótsleik fyrir Ísland á móti Tyrklandi í 3-0 sigrinum 2014.
Jón Daði Böðvarsson skoraði sitt fyrsta mark í mótsleik fyrir Ísland á móti Tyrklandi í 3-0 sigrinum 2014. vísir/getty
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hefur leik í undankeppni EM 2020 í kvöld í Andorra þar sem að það mætir heimamönnum en afar mikilvægt er fyrir okkar menn að fara vel af stað.

Góð byrjun hefur verið lykillinn að góðum árangri íslenska liðsins í síðustu undankeppnum en Ísland hefur ekki tapað fyrsta leik í undankeppni stórmóts í níu ár eða síðan árið 2010.

Í undankeppni EM 2020 mættu Íslendingar liði Noregs á heimavelli í fyrsta leik í september 2010 og töpuðu, 2-1, en Ísland endaði í fjórða og næst síðasta sæti riðilsins með fjögur stig.

Ólafur Jóhannesson, þáverandi þjálfari liðsins, var látinn fara og við tóku nýir tímar með Lars Lagerbäck við stjórnvölinn og Heimi Hallgrímsson honum til aðstoðar.

Þeir félagarnir sneru dæminu við og unnu Noreg, 2-0, í byrjun september 2012 í undankeppni HM 2014 með mörkum frá Kára Árnasyni og Alfreð Finnbogasyni. Tap fyrir Kýpur í öðrum leik kom ekki í veg fyrir að Ísland komst á endanum í umspil um sæti á HM í Brasilíu en tapaði þar fyrir Króatíu.

Tveimur árum síðar skoruðu Jón Daði Böðvarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson mörkin í mögnuðum 3-0 sigri á Tyrkjum í fyrsta leik undankeppni EM 2016 í september 2014. Ísland komst svo á EM og var með í fyrsta sinn á stórmóti.

Ísland byrjaði svo á útivelli í fyrsta sinn í langan tíma í undankeppni HM 2018 í september árið 2016 og gerði 1-1 jafntefli við sterkt lið Úkraínu. Því fylgdu okkar menn eftir með sigrum á Finnum og Tyrkjum á Laugardalsvelli og enduðu á því að vinna riðilinn og komast beint á HM.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×