Fótbolti

Lék sama leik og Shearer fyrir 20 árum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og venjulega þegar leikmenn skora þrennu fékk Sterling að eiga boltann eftir leikinn gegn Tékklandi í gær.
Eins og venjulega þegar leikmenn skora þrennu fékk Sterling að eiga boltann eftir leikinn gegn Tékklandi í gær. vísir/getty
Raheem Sterling skoraði sína fyrstu þrennu fyrir enska landsliðið þegar það vann öruggan sigur á Tékklandi, 5-0, í undankeppni EM 2019 í gær.



Sterling hefur verið í miklum ham að undanförnu og skorað grimmt fyrir Manchester City. Hann skoraði m.a. þrennu þegar City vann Watford, 3-1, í ensku úrvalsdeildinni þann 9. mars.

Sterling er fyrsti enski leikmaðurinn sem skorar þrennu fyrir landslið og félagslið í sama mánuðinum síðan Alan Shearer afrekaði það fyrir 20 árum síðan.

Shearer skoraði sína einu þrennu fyrir enska landsliðið þegar það vann Lúxemborg, 6-0, í undankeppni EM þann 4. september 1999.

Hann skoraði svo fimm mörk þegar Newcastle United vann 8-0 sigur á Sheffield Wednesday í ensku úrvalsdeildinni 19. september 1999. Þetta var fyrsti leikur Newcastle undir stjórn Sir Bobby Robson og jafnframt fyrsti sigur liðsins á tímabilinu. Newcastle fékk aðeins eitt stig í fyrstu sjö deildarleikjum sínum.





Sterling hefur skorað sjö mörk í 48 leikjum fyrir enska landsliðið. Hann gerði aðeins tvö mörk í fyrstu 45 landsleikjum sínum en hefur núna skorað fimm mörk í síðustu þremur leikjum sínum fyrir England.

Sterling er sjötti markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í vetur með 15 mörk.


Tengdar fréttir

Þrenna Sterling kafsigldi Tékkum

Enska landsliðið byrjaði undankeppni EM 2020 með látum á Wembley í kvöld þar sem Tékkar voru í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×