Fótbolti

Laugardalsvöllur er á ótrúlegu markakorti Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo í landsleik á móti Ísland, ekki reyndar á Laugardalsvelli heldur í Saint-Etienne á EM 2016.
Cristiano Ronaldo í landsleik á móti Ísland, ekki reyndar á Laugardalsvelli heldur í Saint-Etienne á EM 2016. Getty/Chris Brunskill

Knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo hefur skorað hvar sem hann hefur komið og með hvaða liði sem hann hefur spilað.

Ronaldo hefur skorað 597 mörk í 799 leikjum fyrir félögin sín og 85 mörk í 156 landsleikjum fyrir Portúgal.

Mörkin hans hafa skilað félögum hans fjölda titla og koma eða brotthvarf hans hefur mikil áhrif eins og sjá má á Real Madrid og Juventus í vetur.

Fólkið á NSS Magazine hefur tekið saman hvar Cristiano Ronaldo hefur skorað mörkin sín og sett það upp á landakort. Þetta markakort Cristiano Ronaldo sýnir vel hversu víða þessi 34 ára gamli Potúgali hefur skorað í heiminum.Þarna eru tekin inn mörkin sem CR7 hefur skorað fyrir Sporting Lissabon, Manchester United, Real Madrid, Juventus og portúgalska landsliðið.

Laugardalsvöllur er líka á þessu ótrúlegu markakorti Cristiano Ronaldo en hann skoraði fyrir portúgalska landsliðið í leik á móti Íslandi í undankeppni EM 12. október 2011. Markið kom með skoti beint úr aukaspyrnu á 3. mínútu leiksins.

Ronaldo á enn eftir að skora í Afríku, Norður-Ameríku og Eyjaálfu en hefur að sjálfsögðu skorað flest mörkin sín í Evrópu.

Hér fyrir neðan má sjá tvö af kortum NSS Magazine, annað af öllum heiminum en hitt af Evrópu. Markið á Laugardalsvellinum sker sig úr á þeim báðum.

Skjámynd/NSS Magazine
Skjámynd/NSS Magazine


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.