Innlent

Þingmenn þurfi að fara upp úr skotgröfunum til að vernda réttarríkið

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að of mikið sé í húfi til að hægt sé að réttlæta skotgrafir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að of mikið sé í húfi til að hægt sé að réttlæta skotgrafir. FBL/Eyþór

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að þingmenn þurfi að fara upp úr skotgröfunum í Landsréttarmálinu svokallaða til að vernda réttarríkið, láta dómskerfið virka og eyða óvissu sem sé uppi um Landsrétt, hið nýja dómsstig vegna nýfallins dóms MDE.

Þetta segir Þorgerður Katrín í stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni um dóm sem Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp í morgun þess efnis að Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, hefði með dómaraskipun sinni við Landsrétt brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

„Það ríkir óvissa í íslensku réttarkerfi – og það að óþörfu. Landsréttur, ein dýrmætasta réttarbót síðari ára, hefur verið settur í uppnám. Það er því afar erfitt að fylgjast með dómsmálaráðherra fara fjallabaksleiðir til að tortryggja niðurstöðu Mannréttindadómstólsins.“

Þorgerður Katrín segir að dómsmálaráðherra ætli sér að viðhalda óvissunni í marga mánuði eða jafnvel ár með því að halda málinu áfram en í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði dómsmálaráðherra að það væri til skoðunar að skjóta málinu áfram til yfirdómstóls en hún hefur þrjá mánuði til stefnu.

„Það er óásættanlegt og óafsakanlegt. Í stað þess að viðurkenna af auðmýkt grafalvarlega stöðu málsins og ætla sér að gera eitthvað í því og það strax,“ skrifar Þorgerður Katrín.

„Við þurfum að setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Í því felst að þingið verði þvert á flokka, að koma að málinu og vinna það hratt og vel,“ segir Þorgerður Katrín sem bendir á að réttarríkið sé í húfi.

„Þar liggur okkar ábyrgð og er mikilvægasta verkefni okkar allra á Alþingi núna eftir niðurstöðu dómsins. Pólitískur einstrengingsháttur eru það ekki. Það þarf að leysa úr málinu – og það strax.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.