Innlent

Neitaði að tjá sig um dóm Mann­réttinda­dóm­stólsins við komuna til Kefla­víkur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, við komuna til landsins í morgun.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, við komuna til landsins í morgun. Vísir/Sighvatur

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, neitaði að tjá sig um Landsréttardóm Mannréttindadómstóls Evrópu við komuna til landsins í Leifsstöð nú í morgun.

Ráðherrann var að koma af fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York og tók Sighvatur Jónsson, fréttamaður, á móti Katrínu á flugvellinum.

„Ég er ekki að fara í viðtal núna. Ég tek fjölmiðlana einhvern tímann í hádegið,“ sagði Katrín við komuna til landsins en hún tjáði sig ekkert um málið í gær. 

Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í gær að skipan dómara við Landsrétt hefði ekki verið í samræmi við grundvallarreglur réttarríkisins og skipanin bryti í bága við 6. grein Mannréttindasáttmálans þar sem kveðið er á um rétt manna til réttlátrar málsmeðferðar.  

Er málsmeðferð Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, harðlega gagnrýnd í dómi MDE sem og málsmeðferð Alþingis.

Fáir stjórnarliðar hafa viljað tjá sig um málið síðan dómurinn var kveðinn upp fyrir utan Sigríði sjálfa og Birgi Ármannsson, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins.

Sigríður sagði í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að hún ætlaði ekki að segja af sér embætti ráðherra vegna dómsins og þá sagði Birgir að hann teldi dóminn engu breyta um stöðu Sigríðar innan ríkisstjórnarinnar.

Uppfært: Myndband sem fylgdi þessari frétt þar sem heyra mátti orðaskipti fréttamanns og ráðherra, sem lesa má hér að ofan, var tekið úr birtingu þar sem vinnslan á því samrýmdist ekki ritstjórnarstefnu fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.


Tengdar fréttir

Segir brot Sigríðar Andersen vera svívirðilegt

Ráðast þarf strax í aðgerðir eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu og Sigríður Á. Andersen getur ekki verið hluti af þeim. Þetta er mat Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingflokksformanns Pírata, og Helgu Völu Helgadóttur, formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Sigríður ætlar ekki að segja af sér

Sigríður Á Andersen, dómsmálaráðherra, telur niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu ekki vera tilefni til þess að segja af sér. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×