Innlent

Leyniformúlan gerir Blönduós mikilvægan fyrir fiskútflutning

Kristján Már Unnarsson skrifar
Leyniuppskriftin blönduð á Blönduósi.
Leyniuppskriftin blönduð á Blönduósi. Stöð 2/Einar Árnason.
Leyniformúla, sem varðveitt er í læstu hólfi og tvær konur á Hvammstanga fundu upp fyrir tuttugu árum, er lykilinn að því að lítið fyrirtæki á Blönduósi er orðið þýðingarmikið fyrir fiskútflutning þjóðarinnar. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Sagt er að uppskriftin að Coca Cola sé eitt best varðveitta viðskiptaleyndarmál heims. Í fyrirtækinu Ísgeli eiga þeir einnig sína leyniuppskrift sem þeir passa að enginn sjái.

Zophonías Lárusson, stjórnarformaður og annar eigenda Ísgels.Stöð 2/Einar Árnason.
„Það má segja að það sé leyndarmálið; lögurinn, þurrefnið sem við blöndum saman við vatn í gömlum mjólkurtönkum og gerir þessa lögun,“ segir Zophonías Lárusson, stjórnarformaður Ísgels.

Uppskriftin sé frá konunum sem þeir keyptu fyrirtækið af og sé geymd í læstu hólfi.

Frá gelmottugerð Ísgels á Blönduósi.Stöð 2/Einar Árnason.
Fyrirtækið var stofnað á Hvammtanga fyrir tuttugu árum af tveimur konum en síðan keypt til Blönduóss fyrir ellefu árum. Það framleiðir gelmottur sem ætlaðar eru til kælingar. 

„Síðan við keyptum fyrirtækið er það búið að margfalda veltuna. Það var bara ein manneskja að vinna í fyrirtækinu þegar við kaupum 2008. Það eru núna sex til sjö í dag,“ segir Zophonías.

Stóraukinn útflutningur á ferskum fiski með flugi stuðlar að vexti Ísgels á Blönduósi.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Ástæðan er stóraukinn útflutningur á ferskum fiski með flugi en til að halda honum köldum eru gelmottur settar með í kassana í fiskvinnslum hringinn í kringum landið. 

„Við viljum meina það að okkar lögur, þessi uppfinning, gelmotturnar, haldi kælingunni lengur heldur en ef bara væri um vatn að ræða, vatn í mottum eða ís.“

Gelmottur frá Blönduósi settar í fiskkassa í fiskvinnslu Guðmundar Runólfssonar hf. í Grundarfirði.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Og svo mikið selst af mottunum að þeir eru búnir að stofna eigið flutningafyrirtæki, eins og nánar má heyra um í frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×