Erlent

Öryggisgæsla við franska tilbeiðslustaði hert eftir blóðbaðið í Christchurch

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglubíll við Moskuna miklu í París í morgun.
Lögreglubíll við Moskuna miklu í París í morgun. Vísir/EPA
Frönsk yfirvöld hafa hert öryggisgæslu við tilbeiðslustaði í kjölfar fjöldamorðanna í tveimur moskum í Christchurch á Nýja-Sjálandi í dag. Að minnsta kosti 49 eru látnir eftir skotárás morðingjans sem virðist hafa verið hægriöfgamaður. Slökkt verður á Eiffel-turninum í kvöld til að minnast fórnarlambanna.

Stærsta samfélag múslima í Vestur-Evrópu er að finna í Frakklandi. Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, sagði að öryggissveitir færu í eftirlitsferðir nærri bænarhúsum í ljósi voðaverkanna á Nýja-Sjálandi í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, tilkynnti á Twitter, að slökkt yrði á ljósum Eiffel-turnins í kvöld til að minnast fórnarlambanna.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að lögreglan á Skotlandi hafi einnig hert öryggi nærri moskum vegna voðaverkanna í Christchurch. Ekki hafi þó borist neinar njósnir af því að sérstök hætta sé á árásum þar.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur lýst morðæðinu í Christchurch sem hryðjuverki.

Fjöldi þjóðarleiðtoga hafa fordæmd hryðjuverkið í dag, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra í morgun.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tísti um árásina nú í morgun og bauð fram aðstoð Bandaríkjastjórnar.

„Hlýjasta samúð mín og bestu óskir til nýsjálensku þjóðarinnar eftir hræðilega fjöldamorðið í moskunum. 49 sakleysingjar hafa látið lífið á svo skynlausan hátt og svo margir fleiri eru alvarlega sárir. Bandaríkin standa með Nýja-Sjálandi með öllu því sem við getum gert. Guð blessi alla!“ tísti forsetinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×