Erlent

Öryggisgæsla við franska tilbeiðslustaði hert eftir blóðbaðið í Christchurch

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglubíll við Moskuna miklu í París í morgun.
Lögreglubíll við Moskuna miklu í París í morgun. Vísir/EPA

Frönsk yfirvöld hafa hert öryggisgæslu við tilbeiðslustaði í kjölfar fjöldamorðanna í tveimur moskum í Christchurch á Nýja-Sjálandi í dag. Að minnsta kosti 49 eru látnir eftir skotárás morðingjans sem virðist hafa verið hægriöfgamaður. Slökkt verður á Eiffel-turninum í kvöld til að minnast fórnarlambanna.

Stærsta samfélag múslima í Vestur-Evrópu er að finna í Frakklandi. Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, sagði að öryggissveitir færu í eftirlitsferðir nærri bænarhúsum í ljósi voðaverkanna á Nýja-Sjálandi í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, tilkynnti á Twitter, að slökkt yrði á ljósum Eiffel-turnins í kvöld til að minnast fórnarlambanna.Breska ríkisútvarpið BBC segir að lögreglan á Skotlandi hafi einnig hert öryggi nærri moskum vegna voðaverkanna í Christchurch. Ekki hafi þó borist neinar njósnir af því að sérstök hætta sé á árásum þar.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur lýst morðæðinu í Christchurch sem hryðjuverki.

Fjöldi þjóðarleiðtoga hafa fordæmd hryðjuverkið í dag, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra í morgun.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tísti um árásina nú í morgun og bauð fram aðstoð Bandaríkjastjórnar.

„Hlýjasta samúð mín og bestu óskir til nýsjálensku þjóðarinnar eftir hræðilega fjöldamorðið í moskunum. 49 sakleysingjar hafa látið lífið á svo skynlausan hátt og svo margir fleiri eru alvarlega sárir. Bandaríkin standa með Nýja-Sjálandi með öllu því sem við getum gert. Guð blessi alla!“ tísti forsetinn.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.