Innlent

Formaður Eflingar segir örverkföll ólögleg á tæknilegum forsendum

Sighvatur Jónsson skrifar
Næstu verkföll verða föstudaginn 22. mars.
Næstu verkföll verða föstudaginn 22. mars. Vísir/Vilhelm
Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, segir að Félagsdómur hafi dæmt svokölluð örverkföll félagsins ólögleg á tæknilegum forsendun. Vel komi til greina að beita þeim áfram í kjarabaráttunni. Félagsdómur dæmdi í gær fjögur af sjö verkföllum sem félagsmenn Eflingar höfðu greitt atkvæði um ólögmæt.

„Mér finnst þetta auðvitað leiðinlegt, ég ætla ekkert að leyna því. Mér finnst þetta fyrst og fremst leiðinlegt vegna þess að þessar aðgerðir voru unnar mjög markvisst með félagsmönnum okkar, með þeim sem þekkja þessi störf mjög vel,“ segir Sólveig Anna.

Örverkföll ekki ólögleg með öllu

Aðspurð um hvað dómurinn þýði fyrir aðgerðir Eflingar segir Sólveig Anna að samkvæmt hennar skilningi sé það ekki svo að þessi tegund verkfalla hafi verið dæmd ólögleg með öllu, heldur snúist málið um tæknilega útfærslu örverkfalla.

Við eigum eftir að skoða þetta vel. Ég er á þessum tímapunkti sannarlega ekki tilbúin til þess að segja að þessi tegund af aðgerðum sé horfin úr möguleikasviðinu okkar.

Sólveig Anna segir að áfram verði haldið af fullum krafti að undirbúa næstu aðgerðir, föstudaginn 22. mars. Þá verða verkföll á hótelum og hjá rútufyrirtækjum. Næstu verkföll í framhaldi verða í lok mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×