Innlent

Beðið fyrir stjórnmálamönnum í bændamessu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Séra Önundur M. Björnsson, prestur sem hefur frumkvæði af bændamessunni í Hlíðarendakirkju í Fljótshlíð.
Séra Önundur M. Björnsson, prestur sem hefur frumkvæði af bændamessunni í Hlíðarendakirkju í Fljótshlíð. Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Séra Önundur S. Björnsson, prestur í Hlíðarendakirkju í Fljótshlíð hefur boðað til bændamessu í dag. Hann segir að í messunni verði bændum þökkuð mataröflun og framleiðsla hreinustu og bestu afurða í heimi, og síðast en ekki síst verði beðið fyrir stjórnmálamönnum, sem stefni íslenskum landbúnaði í voða.

Messan sem verður klukkan 13:00 er fyrst og fremst ætluð bændum og búaliði þar sem Séra Önundur ætlar að messa yfir bændum, auk þess sem Elvar Eyvindsson, bónda á Skíðbakka í Austur-Landeyjum verður ræðumaður dagsins. Séra Önundi þykir einstaklega vænt um bændur.

„Það hefur vakið athygli mína hvað þessir menn og hvað þetta fólk vinnur myrkranna á milli við bústörf sín. Mér finnst bændur svolítið misskildir, bæði af hálfu stjórnvalda og jafnvel neytenda. Menn horfa á dýrar landbúnaðarvörur í verslunum og hugsa með sér, ja, það er naumast að bændurnir fái af þessu. Mergurinn málsins er sá að það eru einmitt milliliðirnir og smásalarnir, sem hirða allan arðinn af þessu, bændurnir fá sáralítið“, segir Önundur.

Séra Önundur í myndatöku með biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur.Magnús Hlynur
Séra Önundur segist ætla að biðja fyrir stjórnmálamönnum landsins og þeirra stefnu, sem hann segir stefna íslenskum landbúnaði í voða verði leyft að flytja inn hrátt ófrosið kjöt inn til landsins eins og frumvarp sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra gerir ráð fyrir. Önundur ætlar líka að minnast Gunnars á Hlíðarenda og Hallgerðar úr Njálu í messunni.

„Gunnar er nú sennilega frægasti bóndi hér um slóðir og þó víðar væri leitað“, segir Önundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×