Innlent

Maður sem léttist um 90 kíló fær næringardrykki ekki niðurgreidda

Sighvatur Jónsson skrifar
Næringarfræðingur við Landspítala telur að endurskoða þurfi viðmið vegna niðurgreiðslu næringardrykkja vegna vannæringar. Reglur um þyngdartap leiði til þess að fólk sem þurfi á næringu að halda fái drykkina ekki niðurgreidda frá Sjúkratryggingum. Dæmi um slíkt er maður sem léttist um 90 kíló.

Sigurður Haukdal var rúmlega 180 kíló. Á einu ári léttist hann um helming sinnar fyrri þyngdar og vegur hann nú um 90 kíló.

Hann fór í aðgerð þar sem góðkynja æxli var fjarlægt. „Það var tekið úr mér hálft bris og hálft milta,“ segir Sigurður.

Fólk sem fær næringardrykki niðurgreidda þarf einungis að borga 10% af verði þeirra. Sjúkratryggingar Íslands borga 90%.Vísir/Baldur
Sigurður var um þrjá mánuði á sjúkrahúsi. Hann glímir einnig við sykursýki og má ekki borða hvað sem er. Á sjúkrahúsinu kynntist Sigurður sérstökum næringardrykkjum sem hann hefur sóst eftir að fá niðurgreidda.

Næringarfræðingur á Landspítalanum sótti um fyrir Sigurð en honum var synjað um niðurgreiðslu næringardrykkja.

Áróra Rós Ingadóttir, næringarfræðingur á Landspítalanum.Vísir/Baldur

Synjun vegna ónógs þyngdartaps

„Fólk fær reglulega synjun af því að það hefur ekki lést nógu mikið,“ segir Áróra Rós Ingadóttir, næringarfræðingur á Landspítalanum.

Áróra hefur lagt til við heilbrigðisráðuneytið að viðmiðunarreglur verði rýmkaðar og að tekið verði mið af nýjum alþjóðlegum greiningarviðmiðum fyrir vannæringu.

Kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna niðurgreiðslu næringardrykkja og sérfæðis undanfarin ár hefur numið um 100 milljónum króna. Sá kostnaður hækkar ef fleiri fá niðurgreiðslu.

„Ef við hugsum þetta í stóra samhenginu fyrir heilbrigðiskerfið á Íslandi þá munum við mögulega spara pening því þessir einstaklingar munu líklega leggjast síður inn á spítala,“ segir Áróra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×