Innlent

Hefur verið í hungurverkfalli í sex daga og segist sitja saklaus í fangelsi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Maðurinn er sakaður um að hafa aðstoðað útlendinga við að komast ólöglega til Íslands.
Maðurinn er sakaður um að hafa aðstoðað útlendinga við að komast ólöglega til Íslands. Vísir/JóiK
Palestínskur karlmaður sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald til 10. apríl næstkomandi vegna gruns lögreglu um að hann hafi, í að minnsta kosti þremur aðskildum tilvikum, aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins hefur verið í hungurverkfalli síðastliðna sex daga.

Hann segist sitja saklaus í fangelsi og hefur aðeins drukkið vatn frá því hann hóf verkfallið.

Samkvæmt upplýsingum sem fréttastofa hefur frá Halldóru Aðalsteinsdóttur, lögmanni mannsins, heldur maðurinn fram sakleysi sínu og sver af sér afbrot í tengslum við komu einstaklinga, sem tengjast unnustu hans fjölskylduböndum, til landsins.

Hann segir einstaklingana sem um ræðir hafa komið til landsins á löglegan máta á eigin vegabréfum og að þeir hafi komið hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd vegna ástandsins í heimalandi sínu, Venesúela.

Sjá einnig: Úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna skipulagðs smygls á fólki

Maðurinn er, eins og áður sagði, talinn hafa aðstoðað erlenda einstaklinga með skipulögðum hætti að komast hingað til lands á ólöglegan máta. Atvikin sem um ræðir eru þrjú, það fyrsta þann 27. febrúar 2018, svo 2. janúar 2019 og hið síðasta mánuði síðar, 2. febrúar.

Ákæra á hendur manninum var gefin út 13. mars síðastliðinn og hann úrskurðaður í gæsluvarðhald í kjölfarið. Meint brot mannsins varða sektum eða allt að sex ára fangelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×