Erlent

Nýr frambjóðandi demókrata setur loftslagsmál á oddinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Inslee hefur lagt áherslu á græna orku og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.
Inslee hefur lagt áherslu á græna orku og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Vísir/Getty
Jay Inslee, ríkisstjóri Washington-ríkis, hefur bæst í hóp þeirra sem ætla að bjóða sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári. Aðalbaráttumál hans verða loftslagsbreytingar sem hann segir „mest aðkallandi áskorun okkar daga“.

Tólf demókratar hafa lýst yfir framboði fram að þessu og búist er við því að fleiri eigi eftir að bætast í hópinn. Flestir þeirra hafa lýst stuðningi við aðgerðir gegn loftslagsbreytingum en enginn þeirra með eins afgerandi hætti og Inslee.

„Ég býð mig fram til forseta vegna þess að ég er eini frambjóðandinn sem mun gera það að forgangsmáli þjóðarinnar númer eitt að ráða niðurlögum loftslagsbreytinga,“ segir Inslee í myndbandi sem hann birti í dag.

Inslee er 68 ára gamall og hefur verið ríkisstjóri Washington-ríkis frá árinu 2013. Hann náði endurkjöri í haust en í kosningabaráttunni lagði hann áherslu á að skapa störf við nýja og endurnýjanlega orkugjafa.

Sem ríkisstjóri hefur Inslee skipað sér í raðir frjálslyndustu demókrata. Í tíð hans hefur opinber heilbrigðisþjónusta verið aukin, lágmarkslaun hækkuð, dauðarefsing verið afnumin í ríkinu og fólk sem hafði hlotið dóma fyrir kannabisneyslu verið náðað, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir

Bernie Sanders býður sig fram til forseta á ný

Bernie Sanders, óháður öldungardeildarþingmaður og sá sem lenti í öðru sæti í forkosningum Demókrata fyrir forsetakosningarnar árið 2016, mun bjóða sig á ný fram til forseta í forkosningum Demókrata sem framundan eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.