Erlent

Útlit fyrir endurkjör Mackys Sall í Senegal

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Macky Sall, forseti Senegal.
Macky Sall, forseti Senegal. Nordicphotos/AFP
Forsetakosningar fara fram í Afríkuríkinu Senegal á sunnudaginn. Samkvæmt Reuters er fastlega búist við því að Macky Sall, sitjandi forseti, fái flest atkvæði þar sem hann þykir hafa stuðlað að framþróun í landinu og hagvexti.

Þar sem þetta verður fyrsta umferð kosninga þarf frambjóðandi að fá meira en fimmtíu prósent atkvæða til þess að ná kjöri án þess að önnur umferð fari fram. Fjórir eru í framboði gegn Sall. Fyrrverandi forsætisráðherrann Idrissa Seck, rithöfundurinn Ousmane Sonko, fyrrverandi utanríkisráðherrann Madické Niang og fræðimaðurinn Issa Sall.

Færri hafa ekki boðið sig fram til forseta síðan árið 1988. Þá voru frambjóðendur fjórir og náði sósíal­istinn Abou Diouf endurkjöri. En þótt Sall þyki líklegur til að ná endur­kjöri sætir hann harðri gagnrýni frá mannréttindabaráttuhópum.

Tveir af allra vinsælustu stjórnar­andstæðingunum, þeir Karim Wade og Khalifa Sall, fá nefnilega ekki að vera í framboði vegna dóma í spillingarmálum. Að því er andstæðingar forsetans hafa haldið fram voru dómarnir til þess gerðir að halda stjórnarandstæðingum frá völdum.

Engar skoðanakannanir eru leyfðar í aðdraganda kosninganna. Síðasta stóra könnunin var gerð í nóvember. Þá mældist Sall, Macky en ekki Issa, með 45 prósenta stuðning en enginn annar með meira en sextán prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×