Innlent

Viðurkennir að deila megi um túlkanir í hvalveiðiskýrslu

Kjartan Kjartansson skrifar
Drepa þyrftu allt að 16.000 langreyðar til að ná fram aukningu á aflaverðmætum sem Hagfræðistofnun telur hægt að ná með hvalveiðum.
Drepa þyrftu allt að 16.000 langreyðar til að ná fram aukningu á aflaverðmætum sem Hagfræðistofnun telur hægt að ná með hvalveiðum. Vísir/Vilhelm

Deila má um túlkanir og framsetningu í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hvalveiðar, þar á meðal um át hvala í hafinu við Ísland. Þetta kemur fram í grein sem stofnunin birti í dag til að bregðast við gagnrýni á skýrsluna. Forstöðumaður hennar fullyrðir að engar stórar villur sé að finna í skýrslunni.

Meginniðurstaða skýrslu Hagfræðistofnunar um hvalveiðar var sú að þær hefðu ekki slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf og að þær drægju ekki merkjanlega úr komum ferðamanna til landsins. Skýrslan hlaut nokkra gagnrýni, meðal annars vegna þess að úr henni mátti lesa að hryðjuverkahætta stafaði af umhverfisverndarsamtökum.

Stofnunin birtir greinargerð með viðbrögðum sínum við þeirri gagnrýni sem beinst hefur að skýrslunni. Þar er meðal annars farið yfir fréttaflutning Ríkisútvarpsins af skýrslunni.

„Hagfræðistofnun verður að taka gagnrýni og læra af henni ef hún á að njóta trausts,“ skrifar Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar.

Sem dæmi nefnir hann að deila megi um hve langt sé rétt að ganga í að túlka tölur Hafrannsóknastofnunar um át hvala hér á landi. Í skýrslunni var meðal annars fjallað um að aflaverðmæti gæti stóraukist ef hvalastofnar yrðu grisjaðir niður í 60% af því sem ella væri. Náttúrufræðistofnun varaði við því að slík aðgerð myndi setja langreyðarstofninn í hættuflokk við Ísland. Sigurður segir að marga fyrirvara um áhrif svo stórtækra veiða hval að finna í skýrslunni.

Telur forstöðumaðurinn að fróðlegt hefði verið að heyra meira um horfur á markaði með hvalkjöt í skýrslunni og að fengur hefði verið að umfjöllun um athugasemdir líffræðinga við aðferðir Hafrannsóknastofnunar. Það hefði þó ekki breytt niðurstöðunum.

„Breyttar áherslur hefðu sennilega ekki breytt meginniðurstöðum skýrslunnar. Rétt er þó að hafa í huga að skýrslan lýsir mati stofnunarinnar á áhrifum hvalveiða um þessar mundir. Matið getur breyst, til dæmis ef viðskiptalönd taka harðari afstöðu til veiðanna,“ skrifar Sigurður.


Tengdar fréttir

Umhverfisráðherra ósammála ákvörðun um áframhaldandi hvalveiðar

Umhverfisráðherra segist afar ósammála ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að gefa út áframhaldandi hvalveiðikvóta og þingmaður Vinstri grænna segist efast um að veiðarnar séu sjálfbærar. Fleiri Íslendingar eru andvígir hvalveiðum en þeir sem eru hlynntir samkvæmt nýlegri könnun.

Aðjúnkt í líffræði segir staðhæfingar í skýrslu rangar

Staðhæfingar í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar um að vöxtur hvalastofna komi niður á fæðuöflun mikilvægra fisktegunda eru beinlínis rangar og þá skauta skýrsluhöfundar fram hjá margþættum áhrifum hvala á vistkerfi sjávar. Þetta segir aðjúnkt í líffræði við Háskóla Íslands sem hefur sérhæft sig í vistkerfi sjávar.

Líklegt að fleiri hvalastofnar þoli sjálfbærar veiðar

Hvölum hefur fjölgað mikið við Ísland undanfarna áratugi. Gísli Víkingsson hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun segir að frekari mælingar séu nauðsynlegar til að taka afstöðu til þess hvort forsvaranlegt sé að veiða fleiri hvalategundir eins og mælt er með í nýrri skýrslu.

Hvalveiðar draga ekki úr ferðum útlendinga og hafa ekki slæm áhrif á efnahagslífið

Gögn benda ekki til að hvalveiðar hafi slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf og ekki er að finna marktækar vísbendingar um að hvalveiðar dragi úr ferðum útlendinga hingað. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Lagt er til að sett verði lög eða reglur um hvalaskoðun sem geti haft áhrif á hegðun hvala og truflað þá í fæðuleit.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.