Innlent

Umhverfisráðherra ósammála ákvörðun um áframhaldandi hvalveiðar

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Umhverfisráðherra segist afar ósammála ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að gefa út áframhaldandi hvalveiðikvóta og þingmaður Vinstri grænna segist efast um að veiðarnar séu sjálfbærar. Fleiri Íslendingar eru andvígir hvalveiðum en þeir sem eru hlynntir samkvæmt nýlegri könnun. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í gær reglugerð sem heimilar áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu til næstu fimm ára. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra kveðst afar ósammála ákvörðuninni.

„Það er alveg ljóst og ég tel að við þurfum að byggja þessa ákvarðanatöku upp á fleiru heldur en bara vísindaráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, það þurfi að líta meira til efnahagslegra og samfélagslegra áhrifa eins og ég hef bent á áður,“ segir Guðmundir Ingi. „Þetta var ekki rætt í ríkisstjórn, þetta er náttúrlega ákvörðun ráðherrans, hann hefur heimildir til þess að gera þetta.“

 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er þingflokksformaður VG.vísir/vilhelm
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna gerði málið jafnframt að umræðuefni á Alþingi í dag. „Engir útreikningar eru til staðar um það hver áhrifin gætu verið á stórauknum hvalveiðum við Íslandsstrendur, ekki síst á hvalaskoðunarfyrirtækin og ferðaþjónustuna í heild,“ sagði Bjarkey meðal annars í ræðunni sem hún flutti undir dagskrárliðnum störf þingsins.

35,7% segjast andvígir

Samkvæmt könnun sem Gallup vann fyrir náttúruverndarsamtökin Jarðarvini í október og nóvember í fyrra segjast 35,7% þátttakenda vera andvígir því að veiðar á langreyði verði leyfðar. Ögn færri, eða 35,1% segjast hlynntir og 29,2% segjast hvorki hlynntir né andvígir. Sjávarútvegsráðherra stendur keikur við ákvörðun sína og kveðst ekki óttast að hún valdi titringi í ríkisstjórnarsamstarfinu.

„Eðlilega eru skiptar skoðanir á þessu og ég virði alveg skoðanir Vinstri grænna í þessu. Þetta er á verksviði sjávarútvegsráðherra hverju sinni og honum er falið þetta verkefni og þarf að sinna því eins vel og hann framast getur og þetta er sú ákvörðun sem að ég tek á grunni þeirra upplýsinga sem mér hafa verið bornar og ég stend að sjálfsögðu með henni,“ segir Kristján Þór.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,Vísir/vilhelm

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×