Innlent

Fyrsta MAX 9 þotan flaug yfir Reykjavík

Kristján Már Unnarsson skrifar
TF-ICA, fyrsta Boeing 737 MAX 9 þota Icelandair, komin að flugskýli félagsins á Keflavíkurflugvelli.
TF-ICA, fyrsta Boeing 737 MAX 9 þota Icelandair, komin að flugskýli félagsins á Keflavíkurflugvelli. Mynd/Icelandair.
TF-ICA, fyrsta 737 MAX 9 þota Icelandair, kom til Íslands í dag. Vélin flaug hring yfir Reykjavík áður en hún lenti á Keflavíkurflugvelli um klukkan hálfellefu í morgun. Sagt var frá komunni í fréttum Stöðvar 2.

Haraldur Baldursson flugstjóri og Kári Valsson flugmaður flugu þotunni heim frá Seattle og voru 7 tíma og 16 mínútur á leiðinni, að sögn Ásdísar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair. 

Koma þotunnar markar nýjan áfanga í mestu flugvélakaupum Íslandssögunnar, kaupum Icelandair á alls sextán þotum af gerðinni Boeing 737 MAX. Þar af eru níu vélar af MAX 8-gerð, sem verða með 160 sætum, og sjö vélar af MAX 9-gerð, sem verða með 178 sætum, en 2,64 metrum munar á lengd vélanna.

MAX 9 þotan komin í nýja skýli Icelandair í dag á milli MAX 8 og Boeing 757.Mynd/Icelandair.
Félagið fékk fyrstu þrjár MAX 8-vélarnar í fyrra og núna er fyrsta MAX 9-vélin komin. Eftir lendinguna í morgun var hún dregin inn í nýja flugskýli félagsins þar sem starfsmenn Icelandair munu innrétta hana, setja sæti um borð og afþreyingarkerfi, en áætlað er að standsetning taki um þrjár vikur. Stefnt er að því að hún verði komin í áætlunarflug í síðari hluta marsmánaðar. 

Icelandair tekur alls sex nýjar MAX-vélar í notkun núna á vormánuðum; þrjár MAX 8 og þrjár MAX 9. Von eru á næstu vél innan viku og hinar fjórar koma síðan hratt inn, og sú síðasta í kringum mánaðamótin mars-apríl. Stefnt er að því að þær verði allar komnar í áætlunarflug í maímánuði, að sögn Hauks Reynissonar, flugrekstrarstjóra Icelandair.

Hér má sjá myndband sem tekið var þegar MAX 9 þotan var dregin inn í skýli Icelandair í dag:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.