Innlent

Skýrslutökum yfir Katalónum sem sakaðir eru um uppreisn lokið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ákærðu í dómsal í Madríd við upphaf réttarhaldanna.
Ákærðu í dómsal í Madríd við upphaf réttarhaldanna. Nordicphotos/AFP
Réttarhöldin yfir tólf leiðtogum katalónsku sjálfstæðishreyfingarinnar héldu áfram í hæstarétti Spánar í Madríd í gær. Skýrsla var tekin af tveimur síðustu hinna ákærðu. Annars vegar Carme Forc­adell, fyrrverandi þingforseta, og hins vegar Jordi Cuixart, formanni samtakanna Omnium Cultural. Þau eru bæði sökuð um uppreisn og uppreisnaráróður og eiga yfir höfði sér áratugi í fangelsi.

Cuixart, sem hefur verið í gæsluvarðhaldi í tæpt eitt og hálft ár, sagði það ekkert forgangsmál að sleppa úr fangelsi. „Heldur vil ég úthrópa mannréttindabrot í Katalóníu og á Spáni. Það er einnig í forgangi að leysa úr þessari deilu,“ sagði Katalóninn og bætti því við að hann væri pólitískur fangi, í haldi vegna skoðana sinna líkt og aðrir Katalónar hafa haldið fram.

Forcadell hafnaði því alfarið að hún hefði misnotað vald sitt sem þingforseti í þágu sjálfstæðishreyfingarinnar. Þá sagðist hún jafnframt fordæma minnihlutahópsvæðingu Katalóna, brot gegn réttindum þjóðarinnar og eigin meðferð í aðdraganda réttarhaldanna.

Réttarhöldin halda áfram í dag. Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar þegar sjálfstæðisatkvæðagreiðslan fór fram í október 2017, mætir fyrir dóminn. Það gerir Sor­aya Sáenz de Santamaría, þáverandi varaforsætisráðherra, sömuleiðis.




Tengdar fréttir

Rósa Björk segir að fangelsun stjórnmálamanna sé ólíðandi

Rósa Björk Brynjólfsdóttir alþingismaður fylgdist með réttarhöldum Katalóna í Madríd og fundaði með katalónskum stjórnmálamönnum. Hún segir réttarhöldin pólitísk og málið snúast um mannréttindi og tjáningarfrelsi.

Réttarhöldin sögð vera farsi

Réttarhöldin yfir leiðtogum katalónsku sjálfstæðishreyfingarinnar hófust við hæstarétt Spánar í Madrid í gær. Málið má rekja til sjálfstæðisatkvæðagreiðslu og -yfirlýsingar haustið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×