Innlent

Mikil vinna í gangi utan funda

Sveinn Arnarsson skrifar
Áttundi fundurinn fer fram í dag.
Áttundi fundurinn fer fram í dag. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI
„Við þurfum að fara að komast að einhverri niðurstöðu fljótlega varðandi launaliðinn. Hvar sársaukamörk SA liggja og hvernig það parast við það sem stjórnvöld eru tilbúin að koma með að borðinu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Áttundi fundur deiluaðila fer fram hjá ríkissáttasemjara í dag en ekki er búist við miklum tíðindum af honum. Ragnar Þór segir að heilmikil vinna sé í gangi þótt ekki sé alltaf verið að boða til formlegra funda. „Þetta hefur gengið mjög hægt en við verðum að gefa forsetum ASÍ og þessu áhlaupi sem stjórnvöld, verkalýðshreyfingin og SA ætla að taka næstu tíu til fjórtán daga til að sjá hvort það séu snertifletir á möguleikum til að ná langtímasamkomulagi.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir viðræður bæði flóknar og tafsamar. „Viðræður eru í gangi alla daga frá morgni til kvölds. Þegar viðræður eru ekki í gangi þá er verið að undirbúa viðræður næsta dags,“ segir Halldór.

Viðræður SA og Starfsgreinasambandsins (SGS) héldu áfram í gær. Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, segir að engin stórtíðindi hafi orðið. „Þetta mjakast eitthvað áfram en við viljum fara að sjá meiri gang í viðræðunum.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er vaxandi óþreyju farið að gæta hjá sumum aðildarfélögum SGS. Næstu skref verða metin á formannafundi á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×