Erlent

Nafnbreyting Makedóníu opnar á aðild að NATO

Samúel Karl Ólason skrifar
Nikola Dimitrov, utanríkisráðherra Makedóníu, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Nikola Dimitrov, utanríkisráðherra Makedóníu, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AP/Geert Vanden Wijngaert

Forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins hafa náð samkomulagi við leiðtoga Makedóníu um aðild ríkisins að bandalaginu. Það var gert í kjölfar samkomulags á milli Makedóníu og Grikklands um nafn þess fyrrnefnda. Nú er útlit fyrir að Makedónía verði þrítugasta aðildarríki NATO.

Fyrst þurfa þó öll ríki bandalagsins að samþykkja aðild Makedóníu.

Yfirvöld Grikklands hafa um árabil komið í veg fyrir inngöngu Makedóníu, vegna nafns ríkisins, sem Grikkir segja til marks um löngun þeirra til að hertaka hérað Grikklands sem ber sama nafn.

Nafn Makedóníu mun því verða Lýðveldi Norður-Makedóníu og verður því breytt á næstu dögum samkvæmt Nikola Dimitrov, utanríkisráðherra Makedóníu.

Deiluna má rekja til ársins 1991 þegar Júgóslavía liðaðist í sundur. Grikkir voru ævareiðir yfir því að Makedónía tók það nafn, sem tengist sögu Grikklands með nánum hætti þar sem gríska Makedónía inniheldur fæðingarstað Alexanders mikla.

Samkomulagið á milli ríkjanna er ekki vinsælt í Grikklandi en þrátt fyrir það samþykkti þingið það í síðasta mánuði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.