Innlent

Lögfræðingur á útfararstofu hefur stuðlað að mörgum hjónaböndum

Sighvatur Jónsson skrifar
Lögfræðingur hjá Útfararstofu kirkjugarðanna segist hafa stuðlað að mörgum hjónaböndum eftir að hafa veitt fólki ráðgjöf vegna erfðamála. Algengt sé að fólk gifti sig til að eiga möguleika á því að sitja í óskiptu búi.

Flestar útfararstofur á Norðurlöndum bjóða uppá lögfræðiþjónustu. Útfararstofa kirkjugarðanna hefur fetað í þessi norrænu spor.

Aðstandendur sem leita aðstoðar vegna útfarar átta sig stundum á því að þeir þurfa að gera ráðstafanir varðandi eigin erfðamál, að sögn Kötlu Þorsteinsdóttur, lögfræðings Útfararstofu kirkjugarðanna. „Þá vaknar oft þessi spurning, hvað verður um mínar eignir að mér látnum?“

Katla Þorsteinsdóttir, lögfræðingur Útfararstofu kirkjugarðanna.Vísir/Baldur

Fjölbreyttar fyrirspurnir vegna erfðamála

Katla segir algengast að fólk leiti eftir lögfræðiþjónustu vegna óska um að fá sitja í óskiptu búi eftir andlát maka.

Þá er mikið um að fólk sem á ekki skylduerfinga, hvorki maka né börn, óski eftir aðstoð við að ráðstafa eigum sínum.

Fólk sem á börn eða maka gerir erfðaskrá til að ráðstafa einum þriðja af eigum sínum sem er það hlutfall sem hægt er að ráðstafa samkvæmt erfðalögum.

Fólk giftir sig eftir ráðgjöf

Undanfarin ár hefur hjónavígslum hjá sýslumönnum fjölgað mikið. Það er meðal annars vegna þeirrar staðreyndar að fólk í sambúð, sem er sem sagt ógift, erfir ekki hvort annað.

„Ég á sök á nokkrum hjónaböndum. Fólk kemur einmitt oft með þetta að ætla að sitja í óskiptu búi en það þarf að fara fyrst og gifta sig og það hafa nokkrir gert það eftir viðtal hjá mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×